145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:22]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um tímabundnar ráðstafanir á svo sáralitlu broti kvótakerfisins að það er eiginlega átakanlegt að hugsa til þess að það sé það sem falla eigi byggðunum í skaut þegar horft er á stóru myndina. Mig langar af því tilefni að nota ræðutíma minn til þess ræða um fiskveiðistjórnarkerfið, annmarkana á því og hvers vegna það er svo brýnt réttlætismál að breyta því kerfi. Ég er ein af þeim sem telja ekki fullnægjandi að leggja veiðigjöld á útgerðina til þess að tryggja innkomu í ríkissjóð. Auðvitað er til bóta ef hægt er að koma á eðlilegu og sanngjörnu veiðileyfagjaldi og sjá til þess að arðurinn af fiskveiðiauðlindinni skili sér betur en verið hefur inn til samfélagslegra verkefna. En það er kerfið sjálft sem þarf líka að taka breytingum vegna þess að uppbygging þess hindrar atvinnufrelsi, kemur í veg fyrir nýliðun, stendur í vegi fyrir jafnræði og stendur í vegi fyrir eðlilegri byggðaþróun í landinu, eins og dæmin sanna og sársaukafull atvik á liðnum árum hafa leitt í ljós.

Sjávarútvegurinn er afar auðug atvinnugrein. Auðvitað á hann að hlaupa undir bagga í samfélagi sem hefur tekist á við jafn stór og alvarleg áföll eins og við Íslendingar á síðustu árum, ég tala nú ekki um í kringum hrun. Þess vegna var það átakanlegt á síðasta kjörtímabili, þegar atlaga var gerð að því að breyta þessu kerfi, að sjá hversu hart og af mikilli grimmd menn gengu fram í því að verja hagsmuni stórútgerðarinnar og hafna sem firru öllum sjónarmiðum sem lutu að því að auka samfélagslega ábyrgð þessarar atvinnugreinar og leiða í ljós að hún sem burðarafl í íslensku samfélagi ætti í ríkari mæli að vera samfélagsþátttakandi. Gríðarlegir fjármunir streyma í gegnum sjávarútveginn og hafa gert það á síðustu árum, sem ættu í ríkari mæli en dæmin sanna að skila sér inn í samfélagið.

Þess er skemmst að minnast fyrir okkur sem stóðum í þessari orrahríð á síðasta kjörtímabili hvernig áróðursstríðið var háð gegn því sem við litum á sem tímabærar og eðlilegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Sú umræða var í raun í sáralitlu samræmi við tilefnið. Menn hrópuðu hrun yfir sjávarútveginn í landinu ef hróflað yrði við kerfinu. Þeir töluðu eins og verið væri að hrammsa frá þeim þeirra lögmætu eign og þjóðnýta hana, eins og það var oft orðað. Gott ef byggðirnar sjálfar áttu ekki að leggjast í eyði og fiskveiðar að leggjast af við strendur landsins ef af þessum áformum yrði. En það var auðvitað fátt sem fékk staðist í þeim málflutningi útvegsmanna og talsmanna þeirra hér á Alþingi. Vitanlega munu fiskveiðar ekki leggjast af við landið eða byggðir fara í eyði þó að útgerðarmenn yrðu með formlegum hætti að horfa upp á að því sem þeir hafa kallað eignarrétt sinn yrði breytt í nýtingarrétt í samræmi við markmið þeirra laga sem verið hafa í gildi um alllanga hríð. Þó að t.d. yrði stofnaður auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildunum yrði ráðstafað til framtíðarnota fyrir samfélagið og að útgerðin legði þar inn hóflegt gjald.

Því er nefnilega þveröfugt farið. Það er núverandi kvótakerfi eins og það er í dag sem kallað hefur alvarlega röskun yfir byggðir landsins. Átakanlegasta dæmið sem við höfum um það eru litlar byggðir eins og t.d. Flateyri við Önundarfjörð sem hefur trekk í trekk mátt taka á sig sársaukafull högg við það að útgerðarmaðurinn selur og fer einn daginn. Einn morguninn vakna íbúarnir við það að ekkert er eins og áður og fótunum hefur verið kippt undan atvinnulífi staðarins.

Ég fór í haust að sjá ágæta kvikmynd, heimildarmynd sem heitir Veðrabrigði, sem ég hefði viljað óska að þingmenn allir hefðu farið að sjá. Hún er skylduáhorf, bara til þess að gera sér grein fyrir því hvað gerist í einu samfélagi og hvaða áhættu sjávarbyggðirnar í landinu eru ofurseldar vegna þess kerfis sem við höfum núna við fiskveiðistjórnina.

Sennilega hefur það aldrei verið vilji löggjafans að reyndin yrði sú sem hún er. Minna má á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga, sem er markmiðsgrein þeirra laga, og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Síðan segir:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Það er með öðrum þjóðin sem á fiskinn í sjónum, við getum kannski kallað það ríkið, en í lögunum stendur „þjóðin“. Það virðist hafa verið frá fyrstu tíð vilji löggjafans að útgerðin hefði nýtingarrétt á þeirri auðlind en ekki eignarhald. Mér finnst það algjörlega skýrt af markmiðslýsingunni.

Svo má auðvitað rifja upp það sem reyndar hefur oft komið til umræðu á þessum vettvangi, að hér er um að ræða kerfi sem samkvæmt úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfið felur í sér sams konar meinsemd og skuldasöfnunin og yfirveðsetningin sem olli efnahagshruninu haustið 2008.

Menn hafa líka leyft sér að tala um það eins og hið frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda, kvótakerfið sé einhvers konar fyrirmyndarkerfi sem ekki megi raska. Það hefur jafnvel verið talað um að aðrar þjóðir líti til okkar Íslendinga með það fyrir augum að reyna að læra af okkar fiskveiðistjórn að þessu leyti. Hvernig stendur þá á því að grátkórinn hrópar alltaf hrun yfir greinina í hvert skipti sem kemur til tals að breyta einhverjum skilyrðum greinarinnar? Það er umhugsunarefni.

Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein í samfélagi okkar. Auðvitað viljum við hlúa að þessari atvinnugrein og tryggja henni eðlileg rekstrarskilyrði, en það verða að gilda þær leikreglur í kringum þessa atvinnugrein sem kallast geta sanngjarnar, hafa samfélagslega þýðingu og opna fyrir það að menn séu frjálsir af því að leita sér viðurværis með fiskveiðum.

Af því að ég nefndi Flateyri áðan þá eru Vestfirðir sá landshluti sem hefur komið einna verst út úr kvótakerfinu. Ég vil minna á nýlega ályktun sem Verkalýðsfélag Vestfirðinga samþykkti nú nýlega þar sem kallað er eftir ábyrgð stjórnvalda vegna áfalla sem dynja reglulega á vestfirskum sjávarplássum í formi tilflutnings aflaheimilda út af svæðinu, eins og segir í þeirri ályktun. Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Með flutningi aflaheimilda úr fjórðungnum hafa Vestfirðingar í raun verið sviptir frumbyggjaréttinum, að nýta sjálfir sína helstu auðlind sem er gjöful fiskimið. Félagið kallar eftir raunhæfum hugmyndum varðandi byggðafestu aflaheimilda. Fundurinn krefst þess að strax verði gerðar viðeigandi ráðstafanir til að Vestfirðingar fái að nýta eigin auðlindir til að styrkja atvinnulíf og búsetu í fjórðungnum.“

Þetta segir í raun og veru allt. Hafi einhver haldið að sjávarútvegsumræðan og ágreiningurinn og ósættið um ríkjandi fiskveiðistjórnarkerfi væri liðin tíð af því að núverandi stjórnvöld hafa leitast við að þegja um það mál, þá er það misskilningur. Vandinn brennur enn þá á byggðum landsins. Atvinnufrelsið hefur ekki aukist. Nýliðunin hefur ekki aukist. Jafnræðið hefur ekki aukist. Og að því leyti sem byggðaröskun í landinu hefur jafnað sig er það vegna ferðaþjónustunnar en ekki vegna þess að skilyrði í sjávarútvegi hafi batnað. Sennilega verður það þá ferðaþjónustan sem bjargar byggðum landsins, ég tala nú ekki um ef núverandi stjórnvöld fá sínu framgengt, því að ekki ætla þau að hrófla við kerfinu.

Þess vegna er mjög brýnt að koma þessari ríkisstjórn frá, skipta um stjórnvöld og skipta um kúrs hvað varðar þennan stóra og mikilvæga atvinnuveg þannig að hann geti orðið það hjarta og sá æðasláttur sem veitir lífi út í byggðir landsins eins og eðlilegt er með jafn stóran atvinnuveg.

Byggðirnar þurfa ekki neina ölmusu. Það er ekki sæmandi að bjóða þeim endalausa ölmusu úr einhverju örlitlu prósenti af því sem til ráðstöfunar er. Byggðirnar fara ekki fram á annað en að fá að bjarga sér sjálfar. Það er frumbyggjarétturinn sem verið er að vísa til, að byggðirnar fái sjálfsbjörgina til þess að bjarga sér sjálfar.

Þess vegna ætti það auðvitað að vera siðferðileg skylda, mundi ég segja, í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og ætti ekki að vera núverandi stjórnvöldum ofraun að taka nýjar tegundir og bjóða þær upp og taka þótt ekki væri nema hluta af aflaaukningunni og setja á útboðsmarkað, því að það er í gegnum útboðsmarkaðinn sem jafnræðisins er gætt, þar geta allir komið og boðið í aflaheimildirnar. Grundvallaratriðið er að byggðirnar fái að bjarga sér sjálfar. Vonandi tekst okkur að breyta hér um stjórnarfar áður en of langt um líður þannig að þjóðin þurfi ekki öllu lengur að búa við það ástand sem nú er.