150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

kjarasamningar hjúkrunarfræðinga.

[10:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra var býsna borubrattur við upphaf veirufaraldursins og sagði að ríkisstjórnin myndi gera meira en minna til að verja atvinnulífið. Það er hins vegar dapurlegt að hann virðist ætla að gera minna en meira þegar kemur að stöðu hjúkrunarfræðinga og þess vegna stefnir í verkfall hjúkrunarfræðinga og staðan er grafalvarleg. Athyglin hefur mest verið á áhrif verkfallsins á nefkoksstrokur ferðamanna við landamæri en minna á áhrifin á hjúkrunarheimili, öldrunarheimili, heimahjúkrun, heilsugæslu, að göngudeildarþjónusta leggist niður og enginn fari í skurðaðgerðir nema líf liggi við, fyrir utan það að ef vel gengur með skimunina mun álagið á heilbrigðisþjónustuna aukast vegna fjölgunar ferðamanna. Veirufaraldurinn hefur gert mikilvægi margra stétta, ekki síst fjölmennra kvennastétta, enn augljósara en áður, að þetta séu kerfislega mikilvægar stéttir. Það eru nefnilega ekki bara flugfélög sem eru kerfislega mikilvæg, hæstv. fjármálaráðherra.

Farsæl stjórn samfélaga þarf að hvíla á tveimur stoðum, efnahagslegum stöðugleika og félagslegum stöðugleika og nú hriktir í hinum síðari líka. Haustið 2016 undirritaði sami fjármálaráðherra samkomulag við aðila launþegahreyfinga í tengslum við samræmingu á lífeyrisréttindum landsmanna. Þar var því beinlínis lofað að vinna markvisst að því að jafna kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði og þá var ekki síst horft til fjölmennra opinberra kvennastétta. Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í á annað ár og ekki fengið að semja um kjör sín frá 2014. Herra forseti. Ef upp kemur alvarleg staða í heilbrigðiskerfinu eftir 22. júní verður hún að þessu sinni ekki af völdum framandi veirufaraldurs heldur vegna ríkisstjórnar sem hefur ekki nægan vilja til að semja og efna þetta loforð. Ég spyr því: Er ekki kominn tími til að höggva á hnútinn (Forseti hringir.) og gefa samninganefnd ríkisins aukið svigrúm til að semja?