150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

seinni bylgja Covid-19, svör við fyrirspurnum.

[10:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Varðandi seinni spurninguna má segja að svarið strandi einfaldlega á mér. Það liggur hjá mér til samþykktar og ég geri ráð fyrir því að koma því til þingsins í dag eða á morgun. Vissulega var kallað eftir upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu enda eru þessi gögn þar en ekki inni í ráðuneytinu þannig að svarið mun byggjast, eðli máls samkvæmt, á gögnum frá Samkeppniseftirlitinu sem getur verið heldur erfitt fyrir mig að taka sérstaklega til skoðunar. Ráðuneytið sækir því gögnin þangað og ég geri ráð fyrir að koma svarinu til þingsins í vikunni.

Varðandi það að við séum að opna landið með þeim hætti sem við gerum, vitandi að mögulega verði bakslag og önnur bylgja, þá reyna menn með veikum mætti, en byggt á gögnum þó, að lesa í líkurnar á því að svo verði. Þannig að við búum okkur undir að það komi önnur bylgja og við tökum því sem höndum ber hvað það varðar. En við vinnum líka með það að þessi leið feli í sér ásættanlega áhættu og gerum auðvitað ráðstafanir og gerum ráð fyrir því, eins og komið hefur í ljós, að upp komi smit og erum með ferla hvað það varðar og það kann að vera að það verði hópsmit o.s.frv. En hvað varðar alveg nýja stóra bylgju þá er það bara verkefni sem við tökumst á við.

Varðandi átakið þá er mikill sveigjanleiki í því vegna þeirra ytri aðstæðna sem uppi eru þannig að það er gert ráð fyrir því að óvæntir hlutir geti komið upp en við vinnum út frá því að við viljum að opna landið og erum í samkeppni við önnur ríki um að fá hingað ferðamenn þannig að það er algerlega rétt ákvörðun að fara í þetta átak en sveigjanleikinn þar skiptir máli. Við munum þá geta beitt því og þeim fjármunum sem í það fara með þeim hætti. Ef það kemur önnur bylgja (Forseti hringir.) þá þurfum við einfaldlega að endurskoða þær ráðstafanir sem við erum með nú.