150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

seinni bylgja Covid-19, svör við fyrirspurnum.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ef önnur bylgja kemur, segir hæstv. ráðherra. Við vonum svo sannarlega öll að það verði ekki önnur bylgja, en því miður er það nú þannig að flestir búast við að svo verði. Við sjáum t.d. núna að í Kína er klárlega eitthvert ástand, önnur bylgja að fara af stað, og reyndar er búist við því í flestum löndum miðað við þær fréttir og þær yfirlýsingar sem maður les. Það sem ég er í raun að spyrja um er: Er ríkisstjórnin eða þau yfirvöld sem fara með þessi mál undir það búin að loka landinu aftur, komi seinni bylgjan? Er það ein af sviðsmyndunum að menn fari aftur í sama farið og farið var í þegar landinu var lokað eða horfa menn til einhverra annars konar aðgerða komi þessi seinni bylgja með jafn alvarlegum hætti og sumir virðast óttast?