150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

seinni bylgja Covid-19, svör við fyrirspurnum.

[10:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt að við sjáum nú þegar ákveðið bakslag í hinum ýmsu löndum. Það má kannski segja að þess vegna muni sú aðferð, sem er alls ekki algild í löndunum í kringum okkur og við ákváðum að fara, þ.e. að skima alla sem hingað koma 15 ára og eldri, mögulega eldast betur en margar ákvarðanir annarra landa. Við höfum með því yfirsýn og getum séð út úr þessum gögnum og fengið ýmiss konar mjög mikilvægar vísbendingar. Það yrði mikið áfall ef við þyrftum aftur að loka landinu. Ég ætla ekki að gerast spámaður um það hvað kann að verða vegna þess að við vitum svo ofboðslega lítið þrátt fyrir að við vitum miklu meira nú en áður. Ef það verður metið sem svo að við getum alls ekki haft landið opið er það auðvitað ákveðin niðurstaða. Við erum miklu frekar að vinna með önnur úrræði en að loka þurfi landinu og það yrði áfall ef svo yrði. Ég minni líka á þá aðferð sem við fórum í framan af af því að smithætta frá ferðamönnum er miklu minni en okkar í milli vegna lítils samneytis ferðamanna við þá sem hér búa.