150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

samkeppnishæfni Íslands.

[10:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Nú berast fréttir af því að Ísland hafi fallið niður um sæti á lista yfir samkeppnishæfni ríkja og sé þar neðst Norðurlandanna. Ísland lækkar þar m.a. í flokknum um skilvirkni hins opinbera og í flokki innviða. Verst er að við fórum niður um fjögur sæti í efnahagslegri frammistöðu, úr 54. sæti niður í það 58. Þetta undirstrikar það sem vitað var og við í Viðreisn bentum ítrekað á, að kólnun hagkerfisins hafi verið hafin fyrir Covid og ríkissjóður þegar orðinn ósjálfbær. Þetta er að sjálfsögðu ekki til þess fallið að létta hið stóra verk að koma efnahag þjóðarinnar aftur á réttan kjöl. Samkeppnishæfni okkar segir margt um lífskjörin í landinu og þróun þeirra næstu árin, atvinnutækifæri og ráðstöfunartekjur heimilanna. Það hjálpar okkur heldur ekki að örgjaldmiðillinn sem íslenska krónan er vinnur líka gegn öllum þessum þáttum.

Þegar atvinnuleysið er nú flogið upp í hæstu hæðir hefur samkeppnishæfni okkar aldrei verið mikilvægari. Af þeim sökum spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann hyggst bregðast við þessari stöðu, sem þó hefði mátt gera fyrr, fyrir meira en ári síðan, enda var ítrekað bent á að efnahagsspáin sem bjó að baki fjármálaáætlun væri allt of bjartsýn. Það er því rétt að spyrja frekar um hvað hæstv. ráðherra finnst um þessa þróun í samkeppnishæfni Íslands og hvernig hann hyggst bregðast við. Þá vil ég sérstaklega spyrja um hvernig hann hyggst bregðast við miklu atvinnuleysi sem blasir við og mun væntanlega verða viðvarandi á hausti komanda og næsta vetur (Forseti hringir.) ef ekki verður gripið til sérstakra úrræða. Ég spyr því: Hvað áformar hæstv. ráðherra í því samhengi?