150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

hugtakið mannhelgi.

627. mál
[11:28]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir að hefja umræðu um þetta hugtak, mannhelgi, og viðra það í samskiptum við nokkra hæstv. ráðherra. Þetta hugtak, mannhelgi, getum við auðvitað skoðað frá ýmsum hliðum og það eigum við að gera í útgangspunktinum. Það á sannarlega erindi við okkur í nútímasamfélagi og t.d. á það sannarlega erindi við okkur alþingismenn, þar sem átakamenning á sér svo djúpar rætur hér og því við þurfum að breyta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að við eigum óumdeilt góða skilgreiningu á þessu hugtaki, mannhelgi, og hvort hann telji ástæðu til að það finni sér stað og eigi að vera í stjórnarskrá.