150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

heimilisofbeldi.

883. mál
[11:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að koma með þessa fyrirspurn og þessa mikilvægu umræðu hingað inn. Ég ætla að fara fyrst yfir þær tölulegu upplýsingar sem hv. þingmaður spyr um. Frá árinu 2015 hafa aldrei átt sér stað fleiri heimilisofbeldismál í einum mánuði en í maí 2020 og þar áður í apríl 2020. Í maí 2020 voru tilkynningar 106 og í apríl 101. Heimilisofbeldismál voru 19% fleiri fyrstu 23 vikur ársins 2020 en á sama tímabili í fyrra en aðeins 2% fleiri ef litið er til 2018. Fleiri brot hafa verið framin í sjö af níu embættum lögreglunnar á fyrstu 23 vikum ársins 2020 en á sama tíma í fyrra og mesta fjölgunin var hjá þremur stærstu embættunum. Meðalfjöldi brota á viku fyrstu fimm mánuði ársins er sambærilegur 2018 og 2020 en þau voru talsvert færri á sama tímabili 2019. Þróunin hefur því verið breytileg sem og fjöldi milli mánaða en að meðaltali hafa þau verið 75 á mánuði á tímabilinu 2017–2020 og meðalfjöldi brota á fyrstu fimm mánuðum 2020 er hár, 88 brot. Það á svo eftir að koma í ljós hvort meðaltalið helst út árið eða hvort brotum fækkar seinni hluta ársins og erfitt að meta eingöngu út frá gögnum lögreglu hvort brotum fari í raun fjölgandi eða hvort einungis tilkynningum fari fjölgandi. Mikilvægt er að fylgjast með þeirri þróun til að meta hvort í raun hafi orðið breyting á fjölda brota. Til þess þarf að skoða reynslu almennings af brotum samhliða gögnum lögreglu og er slíkt t.d. gert með þolendakönnun sem lögreglan framkvæmir í upphafi hvers árs.

Heilmargt gott hefur gerst í málaflokknum síðustu ár og enn er verið að vinna að frekari umbótum. Aðgerðir gegn heimilisofbeldi eru eitt af áherslumálunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en árið 2016 var innleitt sérstakt ákvæði í hegningarlög sem lýsir ofbeldi í nánu sambandi og gerir það refsivert. Með því voru samfélaginu send mjög skýr skilaboð um að ofbeldi í nánum samböndum verði ekki liðið og öll slík mál séu ekki einkamál sem rúmist innan friðhelgi einkalífsins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í mikilvægt átak í þeim málum og breytti verklagi sínu og fór að taka þessi mál mun fastari tökum en áður. Lögreglumenn voru fræddir um eðli og sérstöðu þessara brota enda eru þeir oftast fyrstir á vettvang, tryggt var meira samstarf við félagsþjónustu í útköllum þar sem grunur leikur á að um heimilisofbeldi sé að ræða, breyting gerð á rannsókn brota og öflun gagna og réttargæslumenn kallaðir fyrr til, svo einhver dæmi séu nefnd. Önnur lögregluembætti hafa síðan verið að fylgja þeirri vinnu eftir og lögregluráð er einstaklega góður vettvangur fyrir einstaka embætti til að miðla áfram reynslu sinni og hjálpa hvert öðru eins og í þessum málaflokki.

Síðan voru nauðsynlegar breytingar gerðar á ákvæðum um nálgunarbann til að skerpa frekar á því úrræði og gera það einfaldara í meðferð. Lögreglan hefur kallað eftir því að ákvæði um umsáturseinelti verði sett í hegningarlögin og hyggst ég koma með frumvarp í haust með þeirri breytingu og eru þessar breytingar til þess fallnar að auka vernd þolenda fyrir ágangi brotamanna sem byrjar oft með heimilisofbeldi.

Einn mikilvægasti þátturinn í verklaginu er síðan að tryggja að brotaþolar og gerendur fái viðeigandi og fullnægjandi aðstoð. Árið 2017 var Bjarkarhlíð opnuð og árið 2019 Bjarmahlíð á Akureyri, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þar fer fram mikilvægt starf þar sem einblínt er á að styrkja þolendur ofbeldis í nánum samböndum til að sækja sér hjálp og ráðgjöf. Aðstoðin hefur sannað sig og aðsókn eykst ár frá ári en í dag sæta fleiri mál ákæru, bæði fjölgar nálgunarbönnum og brottvísunum af heimili og einnig ákærum vegna heimilisofbeldismála. Breytingarnar á nálgunarbanni hafa gefist vel og er mikil ánægja með þær, til að koma því á framfæri, en enn þarf kannski að skilgreina aðeins betur hvernig við getum gert það úrræði enn þá virkara.

En allt sem ég hef talið upp og nefnt hér sýnir að ríkur skilningur er innan kerfisins á viðkvæmri stöðu þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum og kynferðisofbeldi og mikill vilji til að bæta réttarstöðu þeirra og draga úr afleiðingum brotanna á heilsu þeirra og líðan eins og hv. þingmaður kom inn á. Nú er verið að endurskoða réttarfarslöggjöfina til að mæta þolendum brotanna sérstaklega og bæta réttarstöðu þeirra þegar mál þeirra eru til rannsóknar og meðferðar. Breytingarnar eru til þess fallnar að auka traust á réttarkerfinu og auka þar með líkur á að þolendur ofbeldis leiti til yfirvalda og kæri brot. Að auki skipuðum við félagsmálaráðherra hóp í maí, sérstakt aðgerðateymi gegn heimilisofbeldi, vegna þeirrar aukningar sem við sáum á ofbeldi gegn börnum á tímum Covid og aðgerðirnar munu miða sérstaklega að viðkvæmum hópum, þar með töldum börnum, konum af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðum sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Teyminu er falið að fylgja eftir öðrum almennum aðgerðum er lúta að fræðslu, þjónustu og stuðningi við þolendur ofbeldis í samræmi við tillögur um áætlun um aðgerðir (Forseti hringir.) gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem samþykkt var hér. Ég tel að skilaboðin séu skýr. Ofbeldi á ekki að líðast í samfélagi okkar og við erum hvergi nærri hætt (Forseti hringir.) að bæta réttarstöðu þeirra sem verða fyrir slíku.