150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

heimilisofbeldi.

883. mál
[11:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fylgjast með þessari umræðu og ég er hjartanlega sammála þeim orðum hæstv. dómsmálaráðherra að vissulega hafi margt gott gerst í þessum málaflokki. Ég held að það sé refsipólitískt mikilvægt að halda því til haga því að það er ekki gott fyrir þolendur að upplifunin sé sú að stuðningsnetið og það kerfi sem við búum við sé ekki þess umkomið að veita þá vernd sem það ætti að gera. Sömuleiðis er ég sammála því að tilkynningar og brot eru alltaf vandmeðfarið umræðuefni, þ.e. hvað er raunveruleg aukning. Í sjálfu sér getur það verið jákvætt að tilkynningum fjölgi í brotaflokki sem hefur verið dulinn, það er þá til vitnis um að vitundin og trúin á kerfið séu að aukast og því séu þolendur að kæra. Ég myndi vilja halda því til haga hver dómaframkvæmdin hefur verið varðandi þennan brotaflokk. Mér hefur fundist sem réttarkerfið (Forseti hringir.) spegli alvarleika heimilisofbeldis ekki með sama hætti og (Forseti hringir.) alvarleika kynferðisbrota. Þó að (Forseti hringir.) ég sé ekki talsmaður mikillar refsihörku eru dómar fyrir þessi brot mjög vægir.

(Forseti (BHar): Forseti minnir á tímamörkin en þau eru eingöngu ein mínúta fyrir aðra þingmenn í þessari umræðu.)