150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

staðsetning starfa.

904. mál
[12:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég sendi skriflega fyrirspurn á alla hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrr í vetur og spurði um vinnu við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar. Í henni er gerð sú krafa að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024. Það er sannarlega verðugt markmið og mikilvægt, frú forseti.

Þrátt fyrir að eiga reyndar enn eftir að fá svör frá fimm hæstv. ráðherrum ákvað ég að það væri komið efni í að hefja munnlega eftirfylgni með þessum fyrirspurnum og mun þeirri eftirfylgni svo ljúka með framlagningu þingmáls í haust.

Ég viðurkenni að svar hæstv. dómsmálaráðherra við fyrri fyrirspurn minni olli mér nokkrum vonbrigðum en samkvæmt því svari hefur dómsmálaráðuneytið ekki ráðið í starf utan höfuðborgarsvæðisins. Þó má segja til hróss að verkefni hafa verið flutt til embætta utan höfuðborgarsvæðisins en þau eru því miður hvorki talin upp né gefinn upp fjöldi þannig að það er erfitt að átta sig á umfangi þess. Ráðuneytið hefur ekki heldur mótað sér áætlun um hvernig á að uppfylla þessa fyrrnefndu kröfu byggðaáætlunar. Þá má nefna að lengi hafa verið áhyggjur af því að t.d. lögregluembætti séu undirmönnuð og jafnvel dæmi um að örfáir lögregluþjónar beri ábyrgð á eftirliti með stórum landsvæðum. Í því samhengi verð ég að ítreka að það er löngu tímabært að semja við lögregluþjóna eins og við ræddum áðan og skora ég á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að það verði gert.

Frú forseti. Staðreyndin er að þetta þarf allt að vinna saman. Sterk höfuðborg þjónar sterkri landsbyggð og sterk landsbyggð og fleiri sterkir kjarnar þjóna sterkri höfuðborg. Því er hið augljósa ójafnvægi hvað varðar staðsetningu opinberra starfa svo alvarlegt. Ég hef áður nefnt það hér að við þurfum e.t.v. að taka upp byggðagleraugu, rétt eins og við tölum um kynjagleraugu, og velti því upp hvort hugsanlega ætti reglan að vera sú að þegar auglýsa á störf þurfi að færa sérstaklega rök fyrir því af hverju eigi að staðsetja tiltekið starf í Reykjavík frekar en annars staðar.

Ef það er eitthvað jákvætt sem hefur komið út úr Covid-faraldrinum er það sú staðreynd að fjölda starfa mætti vinna hvaðan sem er og hafa stórfyrirtæki á borð við Facebook og Twitter tilkynnt starfsfólki sínu að það þurfi ekki að snúa aftur á skrifstofu sína frekar en því sýnist. Svipaðar fréttir af jákvæðri reynslu íslenskra fyrirtækja hafa einnig heyrst og ætla mörg þeirra að auka frjálsræði hvað varðar staðsetningu starfsmanna sinna.

Frú forseti. Ef einhvern tíma er tækifæri til að stíga stór skref varðandi staðsetningu starfa þá er það núna. Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra þeirrar einföldu spurningar hver stefna hennar er varðandi staðsetningu starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess.