150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

staðsetning starfa.

904. mál
[12:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu umræðu. Frá því að ég kom í ráðuneytið hefur áhersla mín verið sú að fólk hafi sem mest val um hvar það býr og geti starfað þar í nágrenninu. Þær öru tæknibreytingar sem orðið hafa á síðustu árum skipta auðvitað sköpum, bæði til að geta fjölgað störfum án staðsetningar og aukið frelsi fólks til að búa þar sem það kýs. Tækifæri fólks á landsbyggðinni til aukinna lífsgæða verða best tryggð með því að færa þangað störf eða að hafa störf án staðsetningar sem hægt er að sinna þar sem fólk kýs að búa. Vegna þessa hef ég í ráðuneyti mínu reynt að hraða innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu eins og kostur er af því að það sparar í senn fjármuni fyrir skattgreiðendur og gefur tækifæri til að fjölga störfum sem ekki eru bundin við einn stað.

Rafræn þjónusta mun einnig opna möguleika á að þjónustan fari fram hjá embættum sem eru fjarri þeim sem sækja þurfa þjónustuna. Það sjáum við mjög skýrt hjá sýslumannsembættunum. Þar eru gríðarlega mörg tækifæri með aukinni rafrænni þjónustu til að færa verkefni sem sinna má hvar sem er á landinu. Þó að flestir sem sækja þá þjónustu séu á höfuðborgarsvæðinu er hægt að sinna henni með rafrænum hætti hvar sem er. Ég hef unnið að því að innleiða hraðar rafræna þjónustu á því sviði og Covid-19 faraldurinn hefur opnað augu margra fyrir kostum fjarvinnu og tækifærunum í fjarfundum og öðru slíku og mun sú þróun vonandi halda áfram. Ég held að ungt fólk sjái tækifæri í því að geta búið í minni samfélögum þar sem helstu innviðir erum við höndina, ekki einungis tækifæri fyrir þá sem vinna verkefni fjarri höfuðborgarsvæðinu heldur þá sem vinna störf um allan heim og geta valið sér staðsetningu á Íslandi.

Ég legg áherslu á að auka valfrelsi um búsetu á grundvelli góðra innviða. Það er best til þess fallið til að skapa fjölbreytt störf og fjölbreytt samfélag í byggðum landsins. Í ráðuneytinu hefur verið unnið að nauðsynlegum undanförum rafrænna þinglýsinga, kvaðayfirferð sýslumanna og leiðréttingu skráningar kröfuhafa. Það eru allt atriði sem sinna má annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu af því að þeim verður sinnt að fullu rafrænt, þó að enn þá þurfi einstaklinga til að fylgjast með og klára þau mál sem ekki fara sjálfkrafa í gegn. Með rafrænum þinglýsingum verður unnt að þinglýsa skjölum í meginatriðum með rafrænum og sjálfvirkum hætti, en breytt framkvæmd við þinglýsingar mun bæta þjónustustigið og stuðla að öruggari og samræmdri málsmeðferð. Jafnframt er reiknað með að verkefnið muni með tímanum skila umtalsverðri hagræðingu hjá sýslumannsembættum, en rafrænar þinglýsingar eiga að komast í gagnið á þessu ári.

Við höfum verið að endurmeta verkefni hjá sýslumannsembættunum með það að markmiði að geta fært þau til og látið önnur embætti vinna þau með rafrænum hætti frá sínum svæðum. Í rauninni eru fjölmargir kostir við það, ekki bara að einstaklingar geta sótt um starf hvar sem er á landinu, hvar þeir kjósa að búa, eða hjá hvaða sýslumannsembætti þeir starfa, heldur mun það líka létta á því embætti sem er langþyngst í vöfum, þar sem eru allt of langir biðlistar og í raun algerlega óboðleg þjónusta á svo mörgum sviðum. Ég hef nú þegar fært verkefni við rafræna útgáfu á reglugerðasafni frá höfuðborgarsvæðinu til embættis sýslumannsins í Vestmannaeyjum. Það er átaksverkefni til fimm ára og leiðir af sér fleiri stöðugildi við sýslumannsembættið í Eyjum. Það hyggst ég gera varðandi fleiri verkefni sem verða þá að fullu rafræn og verður hægt að sinna þeim víða um land. Það eykur þá valfrelsi fyrir þá sem sækja um stöður.

Við erum að meta grundvöll sýslumannsembættanna á grundvelli heildstæðs mats, finna tækifæri til að styrkja embættin og bæta um leið þjónustuna og auka þar rafræna þjónustu. Einnig eru ýmis umbótaverkefni á sviði stafrænnar þjónustu í vinnslu en fyrst og fremst hef ég lagt ríka áherslu á að fylgja eftir þessum verkefnum. Ég tel að með áherslu á rafræna þjónustu sé stuðlað að fjölgun starfa án staðsetningar sem og færslu á einhverjum verkefnum sem hægt er að sinna annars staðar á landinu en þar sem mest er óskað eftir þjónustunni, og að auki er stór kostur að auka hagkvæmni í ríkisrekstri í leiðinni.