150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

framkvæmdir á vegum NATO hér á landi.

825. mál
[13:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu og góðu umræðu. Mig langaði til að leggja áherslu á hve mikilvægt það er í öllum þessum framkvæmdum að horft sé til samfélagsins þar sem þær eru og þær komi að sem mestu gagni þar, hin borgaralegu not séu sem mest. Það sé reynt að vinna þetta sem mest með samfélaginu út frá skuldbindingum Íslands, þeim samningum sem við höfum gert og þeirri skyldu sem við höfum. Sumar af þeim framkvæmdum sem maður hefur heyrt um að væru mögulegar, eins og uppbygging í Helguvík, myndu t.d. draga gríðarlega úr áhrifum varnarsamstarfsins sem við erum í á borgarana og ef það er orðið styttra á milli svæðisins þar sem skipin koma að landi og öryggissvæðisins er það líka mun umhverfisvænna. Ég vildi koma inn á að hagsmunir samfélagsins þar sem byggt er upp skipta miklu máli.