150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

framkvæmdir á vegum NATO hér á landi.

825. mál
[13:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda sem og hæstv. ráðherra fyrir umræðuna hér. Ef ég hef náð að skrifa rétt hjá mér þessa talningu ráðherrans er um að ræða 20–22 milljarða kr. Þar af er íslenska ríkið með um 1,5 milljarða. Ég hef fyrirvara á öllum þessum tölum því að ég þurfti skrifa þær mjög hratt og illa. Það sem ég velti fyrir mér er í raun spurningin sem hv. þingmaður, upphafsmaður málsins, spurði ráðherra: Er hægt að flýta þessum framkvæmdum? Ef svo er, hvað er í vegi fyrir að þeim sé flýtt? Þetta er lykilspurning. Það er mjög mikilvægt að ráðherra svari því. Ef hægt er að flýta þeim, hvers vegna er það þá ekki gert?

Það er annað sem mig langar að koma á framfæri. Nú veit ég ekki alveg hvort þessar framkvæmdir séu hluti af stærra plani eða langtímaáætlun varðandi uppbygginguna. Það er hins vegar ljóst að sú áætlun þarf að vera til og það er líka ljóst að Íslendingar verða að gera sér grein fyrir því að við þurfum að efla varnir landsins. Því miður er þróunin í heimsmálum með þeim hætti að við getum ekki látið eins og ekkert sé. Og ég hvet og styð hæstv. ráðherra til að sjá til þess að varnir landsins verði öruggar.