150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

opinber störf og atvinnuleysi.

884. mál
[13:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Það er í starfslýsingu sérhverrar ríkisstjórnar að skapa störf en á því prófi hefur ríkisstjórnin því miður fallið. Einungis 5% af aðgerðum hennar núna renna í nýsköpun. Atvinnuleysi hefur aldrei verið eins mikið og stefnir í að aukast með haustinu. Að skapa störf, líka opinber störf, skiptir máli í svona ástandi. Allar ríkisstjórnir um allan heim eru að gera það til að bregðast við kreppunni en ekki hér, því að formanni Sjálfstæðisflokksins finnst það víst vera versta hugmynd sem hann hefur heyrt, eins og hann orðaði það, þegar ég nefndi þennan möguleika. Það að fjölga opinberum störfum fjölgar ekki bara störfunum heldur bætir það þjónustuna við okkur sjálf því að hér vantar hjúkrunarfræðinga, lögreglumenn, vísindafólk, sjúkraliða og sálfræðinga o.s.frv. Auðvitað þarf einnig að fjölga störfum í einkageiranum en það er kostnaðarsamt, herra forseti, að hafa fjármálaráðherra sem sér ekki verðmæti í fleiri opinberum störfum. Það er hugmyndafræðilegur ágreiningur sem Samfylkingin er a.m.k. ekki hrædd við að takast á um við Sjálfstæðisflokkinn. (Forseti hringir.) En það vekur athygli að sem fyrr þegja Vinstri grænir í þessari umræðu.