154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[15:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kom hér upp fyrir rúmri viku síðan og minnti hæstv. ráðherra á ósvaraðar fyrirspurnir sem eru orðnar dálítið gamlar. Það virtist virka á suma hæstv. ráðherra, ekki alla. Það er sérstaklega fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra sem er orðin 80 daga gömul, reyndar var fyrir rúmum mánuði síðan beðið um tveggja vikna frest en það er dálítið síðan að sá tveggja vikna frestur leið. Mig langar því að hvetja hæstv. ráðherra og aðra ráðherra sem kannski eiga aðeins yngri fyrirspurnir frá mér að endilega vinna í þessu, sérstaklega vegna þess að nú erum við á síðustu vikum þingsins nema hæstv. forseti ákveði annað. En þá er það þannig að við fáum ekki svör, jafnvel þó að ráðherrar sendi þau til þingsins, fyrr en í byrjun ágúst eða september, eftir því hvenær er ákveðið að hafa vefútbýtingu. Það er síðasti séns fyrir okkur að fá þetta fyrir sumarið. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða í gegnum listann og senda okkur sem flest svör í þessari viku.