154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Eins og hv. þingmaður þekkir, og ef ég man rétt sat hann í samráðshópi þegar þetta úrræði var smíðað og reynt að hafa eins víðtækt samtal við sem flesta aðila og hægt var, þá er þetta afmarkað við þá sem áttu lögheimili í sínu eigin húsnæði undir eigin kennitölu. Það er hins vegar líka þannig að í lögunum er alveg opnað á að þar sé skoðað, eigum við að segja með opnum hætti ef það eru einhver grá svæði sem þar eru undir. Ég veit að það eru tilfelli þar sem fólk hefur sótt um að selja íbúðir sínar og það hefur í flestum tilvikum verið samþykkt og satt best að segja held ég í öllum tilfellum sem hafa verið afgreidd. Umfangið hefur vaxið umtalsvert miðað við þær hugmyndir sem menn höfðu upphaflega um hversu margir myndu vilja selja íbúðir sínar. Hér er svona líkleg ágiskun að í tilfelli um 950 af þeim 1.200 íbúðum sem voru í Grindavík á þessum tíma verði óskað eftir þessum kaupum og það er í því ljósi sem við erum að auka hlutaféð. Heimildin var til að hafa hlutafé upp á 25,9 milljarða, ef ég man rétt, en er verið að auka það í 37 vegna þess að umfangið hefur vaxið. Ef allt íbúðarhúsnæði yrði keypt til viðbótar myndi það hlaupa á einhverjum tugum milljarða til viðbótar og myndi þá ekki vera í samræmi við það sem menn ákváðu að afmarka sig við í lagasetningunni á sínum tíma.