154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get nú ekki talað um að það sem við erum að gera hér sé einhver styrkur til Grindvíkinga eða stuðningur. Við erum að verja hér eitt af mikilvægustu byggðarlögum landsins, gríðarlega öflugt samfélag þar sem bjuggu um 1% íbúanna og ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að við gerum það sem við getum. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að þetta hefur ekki veruleg áhrif á afkomuna. Það er engu að síður þannig, og það er rétt hjá hv. þingmanni, að við erum að sækja m.a. fjármagn eða lánaheimild sem er samþykkt hjá Þróunarbanka Evrópu, sem við vorum stofnaðilar að fyrir 67 árum, 1956, sem einmitt leggur áherslu á stuðningsaðgerðir á svæðum sem verða fyrir náttúruhamförum eða einhverju slíku og þurfa á uppbyggingu að halda. Sú lánaheimild er sótt í varúðarskyni, og það er ekki þar með sagt að við þurfum að draga á hana, og er að fjárhæð sirka 22 milljarðar. Við munum sjálfsagt þurfa að nota eitthvað af því en hversu mikið get ég ekki fullyrt en við munum ekki draga á nema það þurfi. Við erum auðvitað að fjármagna hér fasteignakaup þannig að það eru eignir á móti. Það er ekki verið að taka lán til að eyða í einhverja óvissu. Það kemur líka fram hérna að verið er að sækja sérstaka heimild til að geta tryggt það að náttúruhamfaratrygging geti lagt þessu verkefni lið, allt að 15 milljarða sem fara líka í hlutafé. En ég held það megi segja, ef maður er í stóru myndinni, að stuðningsaðgerðir séu farnar að nálgast 100 milljarða sem við erum að nota til að verja byggðir og styrkja fólkið (Forseti hringir.) og bakka upp þá starfsemi sem þó getur verið í Grindavík í þeirri von (Forseti hringir.) að hamförunum linni og það sé hægt að fara að byggja upp að nýju.