154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi og kemur fram í greinargerðinni þá hefur þetta ekki veruleg áhrif miðað við það sem áður var spáð. Það er engu að síður mat okkar og ég held að það sé gott líka fyrir þingið að fá möguleika á að fjalla um þetta þannig að það sé ekki verið að ganga á varasjóð sem var auðvitað ríflegur þegar við lögðum af stað og við höfðum í huga að við þyrftum að takast á við hamfarir af einhverjum toga sem eru kannski stærri en við áttum áttu von á eða vonuðumst eftir, öllu frekar að segja. En engu að síður hefur það verið gert hér þannig að ég lít svo á að þetta sé verkefni sem við höfum tekist á við og náð að höndla býsna vel innan þess ramma sem við ráðum við.

Varnargarðagjald var sett á hér tímabundið. Ég og fleiri höfum flaggað því að ef við erum að fara að búa til viðbótarforvarnaaðgerðasjóð, sem varnargarðasjóðurinn er, þá sé ekkert óeðlilegt að hugsa að hann verði til lengri tíma en þriggja ára og standi undir frekari tekjum. Þessir varnargarðar t.d. (Forseti hringir.) hafa kostað meira en það munu líka verða aðrar forvarnaaðgerðir í framtíðinni sem munu kosta fjármuni.