154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:40]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er alvarleg staða sem er komin upp. Fjármálaráð hefur veitt það álit að mögulega standist fjárauki þrjú, kjarasamningsfjáraukinn, ekki lög um opinber fjármál. Ólíkt þeim fjárauka sem hér er verið að ræða um, sem felur í sér að það er verið að koma til þingsins og sækja fjárheimildir eftir á út af einhverjum óviðráðanlegum og ófyrirséðum áföllum, þá eru pólitísk inngrip líkt og kjarasamningsinngripin ekki ófyrirsjáanleg. Mig langar í þessu samhengi að nefna líka eitt. Ein af fjármögnunarleiðunum í fjárauka þrjú, kjarasamningsfjáraukanum, er einmitt að auka arðgreiðsluna úr Landsvirkjun. Það er arðgreiðsla sem annars hefði runnið í svokallaðan þjóðarsjóð sem hér stendur til að innleiða, sama þjóðarsjóð og stendur til að nota til að greiða einmitt fyrir hamfarir eins og þessar.