154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:48]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé flestum skýrt hér inni hversu mikilvægt það er að taka hreinskipta umræðu um fjármögnun þessara aðgerða. Við stöndum núna frammi fyrir því að þrátt fyrir að verðbólga hafi tekið aðeins að síga þá eru vextir enn þá 9,25% í landinu. Það er risastórt mál þegar við fáum líka svona áfall í fangið. Ég hvet bara hæstv. ríkisstjórn, forseti, að taka til sín þessa gagnrýni, horfast í augu við að það að vera við völd felur í sér að taka líka erfiðar ákvarðanir í formi þess að útskýra fyrir fólki hvað það þýðir raunverulega að standa með fólki í svona hamförum og mæta til leiks með fjármögnun.