154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[23:12]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú líður mér svolítið eins og ég sé í munnlegu prófi og lentur í vandræðum. Eitt af því sem hv. þingmaður er hér að tæpa á er óskýrleiki þegar kemur að því að við erum fyrst með rammaáætlun, þar sem fram fer ákveðið ferli í faghópum, verkefnisstjórn o.s.frv., en svo eftir að löggjafinn hefur samþykkt þingsályktun um rammaáætlun þá tekur leyfisveitingaferli við og m.a. umhverfismatsferlið þar sem stundum er kannski verið að skoða og kanna atriði sem þegar er búið að kanna í rammaáætlunarferlinu. Hvernig vatnaáætlun og vatnalögin spila inn í þetta allt saman, ég þori hreinlega ekki að tjá mig um það. Ég held að ég gæti bara gert mig að athlægi ef ég færi að hafa mörg orð um þann þátt í þessu samhengi. En þetta er vissulega það sem Hvammsvirkjun strandaði á. Og eins og ég fór yfir hér áðan tók það Orkustofnun 18 mánuði að afgreiða leyfið í því tilviki. Auðvitað hefði verið betra ef niðurstaðan þar hefði legið fyrir fyrr og Umhverfisstofnun þá farið fyrr af stað, líka varðandi mat á þessu með tilliti til vatnalaga. En að öðru leyti ætla ég bara að segja pass við spurningu hv. þingmanns sem er kannski, hvað þetta mál varðar, með þessi fínni blæbrigði betur á hreinu en ég, heyrist mér.