154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[23:14]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég biðst afsökunar á því að þessi spurning var rosalega tæknilegs eðlis, ég missti mig aðeins í vatnaáætluninni og vatnshlotum, sem eru svo skemmtileg fyrir mér. En annað sem ég tók eftir í ræðu hv. þingmanns var að hann talaði um stefnu Samfylkingarinnar í orkumálum og málefnapakkann sem þau kynntu nýverið varðandi markmið í orkuskiptum, hvað þurfi að gera betur, að það þurfi að ná 5 TWst, minnir mig, til að ná þessum markmiðum íslenskra stjórnvalda. Þar tók hv. þingmaður einnig fram að raunhæfur kostur væri að fjölga virkjunum í nýtingarflokki. En eins og við höfum verið að tala um í þessum andsvörum og þessum orðaskiptum okkar á milli er leyfisveitingarferlið rosalega tímafrekt. Það mun að öllum líkindum sæta kærum þegar virkjun yfir 10 MWst fer í nýtingarflokk. Leyfin sem eru gefin út verða kærð, sem er náttúrlega bara hluti af Árósasamningnum og þjóðréttarlegum skuldbindingum, og mér finnst það bara frábært. Ég er hins vegar að velta því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi íhugað þann valmöguleika sem er umhverfisvænni og tekur ekki jafn langan tíma sem er að bæta flutningsgetu núverandi virkjana, leggja aðaláherslu á að bæta flutningsgetu núverandi virkjana þar sem þau svæði teljast nú þegar vera röskuð í umhverfislegum skilningi. Stækkun virkjana þarf t.d. ekki að fara í gegnum rammaáætlun og þar af leiðandi tekur ferlið aðeins styttri tíma og því langaði mig að spyrja hv. þingmann að því hvort Samfylkingin og hann hafi íhugað þann valkost.