154. löggjafarþing — 119. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[00:49]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú vil ég spyrja hv. þingmann út í fjárveitingu undirstofnana almennt. Ég fæ það á tilfinninguna að víða sé pottur brotinn hvað þær varðar. Það berast einmitt oft skýrslur frá Ríkisendurskoðun eða greinar eftir starfsfólk, jafnvel eftir að það hefur sagt starfi sínu lausu, þar sem bent er á viðverandi fjársvelti undirstofnana. Þekkt dæmi er t.d. þegar forstöðukona Sjúkratrygginga treysti sér ekki til að veita stofnuninni áfram forgöngu vegna þess að hún taldi að stofnunin hefði í raun verið gerð óvirk með ákvörðunum um allt of lágar fjárveitingar miðað við umfang þeirra verkefna sem henni bar að sinna. Er hv. þingmaður sammála mér um það að ráðast þurfi í úttekt á því hvers vegna það er svo algengt hér á Íslandi að undirstofnanir séu fjársveltar. Ég get nefnt fleiri dæmi, svo sem lögregluembættin, Landhelgisgæsluna, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, og dæmin eru svo miklu fleiri, því miður. Er hugsanlega þörf á að fjárlaganefnd fái ekki aðeins gögn um hvað ráðuneytið leggi til að stofnanir fái í fjárveitingar heldur einnig hvað forstöðumenn stofnananna kalla eftir miklu fé frá ráðuneytununum til að reka starfsemina áfram, og þá einnig rökstuðningi sem fylgir. Manni fannst það t.d. skjóta skökku við þegar Landspítalinn þurfti haustið 2022 að fara til fjárlaganefndar og vekja athygli á því að fyrirhuguð fjárveiting gerði ekki ráð fyrir reiknuðum raunvexti í heilbrigðisþjónustu.