132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

14. mál
[12:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem í pontu til að lýsa yfir stuðningi mínum við þá þingsályktunartillögu sem ræðum hér um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum.

Ég tel að hér sé á ferðinni ákaflega gott mál og þarft. Það er mikið vandamál hversu brottfallið er hátt og mjög nauðsynlegt að skoða hvernig ungt fólk tekur ákvarðanir um að velja sér námsbraut til menntunar. Oft hefur verið talað um misvægið milli starfsmenntunar annars vegar og svokallaðs bóknáms hins vegar og ég held að það sé afar nauðsynlegt að huga vel að því hvernig það hefur þróast hér á landi undanfarin ár. Svokallað starfsnám virðist fara halloka og að ekki sé nægileg sókn í það af ungu fólki. Ég tel það mjög varasamt fyrir íslenskt þjóðfélag til framtíðar ef sú þróun heldur áfram og því held ég að efni þeirrar tillögu sem við ræðum hér, um að skipa nefnd til að kanna gildi þess og gagn að auka náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum sem úrræðis gegn brottfalli nemenda í framhaldsskólum fyrir farsælt náms- og starfsval, sé afar nauðsynlegt.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en vil samt láta þess getið að í stefnu okkar í Frjálslynda flokknum höfum við beinlínis ályktað um þetta efni og segjum í stefnuskrá okkar að Frjálslyndi flokkurinn vilji efla náms- og starfsráðgjöf í framhaldsskólum til að sporna gegn brottfalli nemenda og efla eftirfylgni með brottfallsnemendum. Það er í raun og veru sama hugsun og er í þeirri tillögu sem hér er flutt og hefur verið rædd af þingmönnum, um eflingu starfs- og námsráðgjafar. Ég lýsi því yfir miklum stuðningi okkar í Frjálslynda flokknum við málið. Ég vona sannarlega að það fái góða umfjöllun í menntamálanefnd og að tekið verði jákvætt á því og tillagan fái brautargengi í hv. Alþingi. Ég tel að tillagan sé ákaflega vel unnin og að hv. þm. Jónína Bjartmarz eigi þakkir skildar fyrir að hafa lagt málið fram á Alþingi með þeim hætti sem hún gerir í þingskjalinu og lýsi aftur stuðningi okkar í Frjálslynda flokknum við málið.