142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum fyrirhuguð áform ríkisstjórnarinnar um nýbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Á liðnum árum hefur ítrekað verið rætt um byggingu nýs Landspítala, margar ríkisstjórnir og ráðherrar frá ólíkum stjórnmálaflokkum hafa komið að málinu. Samhliða sameiningu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík var lögð áhersla á að starfsemin yrði færð á einn stað og í mjög langan tíma hefur verið unnið að byggingu þessa spítala. Sem dæmi skilaði nefnd á vegum Jóns Kristjánssonar, þáverandi heilbrigðisráðherra, og nefnd undir forustu Ingibjargar Pálmadóttur niðurstöðu árið 2002 þar sem hagkvæmast var talið að Landspítali – háskólasjúkrahús yrði byggður upp við Hringbraut. Síðan samþykkti þáverandi ríkisstjórn á árinu 2005 að efnt yrði til alþjóðlegrar skipulagssamkeppni um nýtt háskólasjúkrahús og teymi hönnuða undir stjórn dönsku arkitektastofunnar C. F. Möllers vann í framhaldinu ítarlegar þarfagreiningar, tæknigreiningu og endanlega útfærslu á verðlaunatillögunni.

Síðan hefur málið haft þann framgang að þessar tillögur voru endurskoðaðar eftir hrunið. Þá kom fram ný tillaga, unnin að frumkvæði þáverandi forstjóra Landspítalans í samráði við norskt fyrirtæki, um að það væri miklu dýrara að gera ekki neitt og sú undirbúningsvinna sem þá var unnin fékk góða umsögn einmitt frá þeim sem skoðuðu þetta og ítrekuðu að það mundu sparast miklir fjármunir við það að leggja starfsemina af í Fossvogi og sameina spítalareksturinn við Hringbraut.

Bygging spítalans kom einnig upp í tengslum við stöðugleikasáttmálann 2009 þegar samdrátturinn var hvað mestur að nýta þá tækifærið til þess að fara í stórar framkvæmdir. Við höfum legið undir ámæli fyrir að hafa ekki fylgt því fastar eftir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að svo voru samþykkt lög um stofnun opinbers hlutafélags um nýjan Landspítala árið 2010, samþykkt einróma með 45 atkvæðum, aðeins fjórir sátu hjá. Síðan gerðist það að menn treystu sér ekki til þess að fara í alútboð og þá leiguleið sem þar hafði verið áætluð, einfaldlega vegna þess að menn töldu að markaðurinn væri ekki undir það búinn og þá var ákveðið að breyta verkefninu þannig að hægt væri að fara í framkvæmdina sem opinbera framkvæmd og tillaga um það samþykkt á síðasta þingi.

Síðan stendur núna yfir forval vegna útboðs og hönnunar nýrrar landspítalabyggingar en umsóknarfresturinn þar er til 22. júlí nk. — Mig vantar klukkuna, ég hef ekki hugmynd um hvaða tíma ég hef. Ég leyfi mér að minnsta kosti að ljúka ræðunni.

(Forseti (EKG): Klukkan er biluð en forseti reynir að fylgjast með klukkunni á vegg á móti.)

Mig langar að koma að því hvers vegna er svona mikilvægt að byggja nýjan Landspítala. Tilgangur þessa verkefnis hefur frá upphafi verið að tryggja að íslenskt heilbrigðiskerfi geti áfram verið í fremstu röð í heiminum og boðið upp á bestu þjónustu og aðstoð fyrir sjúklinga og starfsfólk, til að bæta nýtingu fjármuna líka, minnka flutninga innan bæjar, sameina þjónustu og minnka spítalasjúkdóma, svo eitthvað sé nefnt.

Sífellt eru gerðar meiri kröfur um aðstöðu og tæki og búnað og álagið eykst stöðugt, m.a. vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar. Ný tækni gefur ný tækifæri og eykur kröfur. Forsendan er að hér sé verið að tala um sjúkrahús sem sinnir erfiðustu tilfellum og flóknustu verkefnum í íslensku heilbrigðiskerfi, sinnir kennsluhlutverki sem háskólasjúkrahús en er jafnframt svæðissjúkrahús höfuðborgarsvæðisins. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að þessi framkvæmd á hvorki að hafa áhrif á landsbyggðarsjúkrahúsin né kragasjúkrahúsin umfram það sem orðið er. Það er ekki reiknað með að verkefni verði færð til höfuðborgarsvæðisins.

Nú höfum við farið í gegnum tíma bæði hjá fyrrverandi ríkisstjórnum og núna eftir hrunið þar sem þrengt hefur verið að Landspítalanum. Hann hefur þurft mikið á því að halda að endurnýja tæki og við höfum átt í erfiðri samkeppni um lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk vegna aðstöðu, tækja og launa og þess vegna er mjög mikilvægt að fram komi framtíðarsýn um úrbætur og lausnir, hvað er í vændum.

Þegar málið var samþykkt 2010 var forsendan sú að sjálfstæð úttekt fjárlaganefndar Alþingis færi fram á þeim fullyrðingum að það fengist um það bil 2,6 milljarða hagræðing við sameiningu bygginganna einna, þ.e. ekki vegna annarra hagræðinga. Það er mikilvægt að við ljúkum því, því að þar með er hægt að fjármagna bygginguna með þeirri hagræðingu.

Ég beini til hæstv. ráðherra heilbrigðismála í fyrsta lagi spurningunum: Hvað hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra gera varðandi framhald byggingar nýs Landspítala? Eru áform um að hætta við forvalið sem nú er í gangi? Liggja fyrir áætlanir um framhald byggingarinnar?

Í öðru lagi: Hvernig ber að skilja eftirfarandi texta í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu nýs Landspítala varðandi velferðarmál, með leyfi forseta:

„Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.“

Má skilja það þannig að það eigi að gera hvort tveggja, byggja nýtt hús og bæta tækjakostinn hjá núverandi byggingum? Það væri hið besta mál.

Í þriðja lagi: Er ekki óhjákvæmilegt að byggja nýjan Landspítala til að uppfylla eftirfarandi ákvæði stefnuyfirlýsingarinnar, með leyfi forseta:

„Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, (Forseti hringir.) aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna.“

(Forseti (EKG): Hv. þingmönnum til hugarhægðar vill forseti upplýsa að þó að klukkan sé í ólagi er dagatalið í góðu lagi í skjáborði forseta.)