143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

18. mál
[18:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega. Ég ætla að þakka 1. flutningsmanni málsins, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, fyrir endurflutninginn. Ég hef staðið að þessari tillögu held ég í hverjum einasta flutningi hingað til enda tel ég mikilvægt að við förum að efni tillögunnar. Ég vildi árétta það í þingsal að mikil samstaða var um málið í efnahags- og viðskiptanefnd þegar það var afgreitt þaðan á 141. þingi að mig minnir. Það voru eingöngu fundaskapalegar, tæknilegar pólitískar brellur sem komu í veg fyrir að ýmis mál færu á dagskrá. Það var ekki sérstök pólitísk andstaða við tillöguna. Því tel ég mikilvægt að þingið afgreiði hana sem fyrst.

Hér er talað um að skila eigi tillögum fyrir 1. október 2014 og það er mikilvægt þegar verið er að vinna tillögur sem þessar að nægur tími sé til vinnunnar. Það eru liðin fimm ár frá hruni og bankakerfið sem við ætlum að vera með til framtíðar þarf að fara að taka á sig mynd. Því er mjög mikilvægt að við afgreiðum þessa þingsályktunartillögu sem fyrst og ég vildi koma hér upp til að hvetja til þess að gengið verði hratt og örugglega í það enda er þingið búið að fjalla ítarlega um málið og komast að sameiginlegri niðurstöðu í nefnd. Þó að hér séu komnir nýir þingmenn að málinu og þeir vilji eðlilega kynna sér málið en ekki láta þingmenn sem jafnvel eru farnir af þingi taka ákvarðanir fyrir sig, finnst mér gangur málsins til vitnis um að engin alvarleg átök eru um tillöguna og það ætti að vera hægt að afgreiða hana hratt og vel, fjármálakerfinu og þar með samfélaginu öllu til heilla.