144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þegar stórt er spurt verður stundum lítið um svör. Ég verð að játa það að nefndin fékk ekki yfirlit yfir stöðu þessara viðræðna. Það var beðið um frest sem er endurtekning á því sem gerðist í fyrra og lengra man ég nú ekki af þinglegri meðferð þessa máls. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þessi vandi hverfur ekki.

Vandinn varðandi Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er sennilega tvíþættur. Í fyrsta lagi tapaðist mikið í hruni fjármálakerfisins og síðan kunna iðgjöldin að hafa verið vanáætluð miðað við þær skuldbindingar sem sjóðnum var ætlað að standa undir. Stóra meginsvarið við spurningunni hef ég ekki, þ.e. hvernig viðræður ganga, en það var óskað eftir þessum fresti til þess að halda viðræðum áfram á þeim grunni sem þær hafa verið.

Varðandi fjölþjóðlegan samanburð á lífeyrisskuldbindingum og skuldum þjóða þá er ég ekki í standi til þess að fjalla um það hér og nú, hins vegar verð ég að segja að mér er lífeyriskerfi landsmanna mjög hugleikið. Lífeyrir landsmanna er ekki til þess að mæta óvæntum hlutum, hann er til þess að mæta því sem gerist í lífi fólks, það eldist og á efri árum dregur það sig út af vinnumarkaði og því er ætlað að gera það í mörgum tilfellum, þannig að það eigi hann til þess að standa undir sæmilegum lífskjörum á þeim hluta æviskeiðsins.

Ég ætla bara að segja það hér og nú að lífeyri landsmanna er því miður ekki sýnd mikil virðing. Það er stundum hugsað þannig að hægt sé að ganga í lífeyrissjóði eins og þeir séu almannaeign, það sé hægt að skerða lífeyri vegna ýmissa áhugamála misvitra stjórnmálamanna.

Síðast en ekki síst er ávallt talað um þrjár stoðir lífeyris, þ.e. almannatryggingar, lögbundinn lífeyrissjóð og viðbótarlífeyriseign sem er valkvæð hjá hverjum einstaklingi fyrir sig. Ég hef hins vegar haldið fram fjórðu stoðinni sem er frjáls sparnaður og hef þegið það að launum að það sé þjónkun við fjármagnseigendur. Frjáls sparnaður einstaklinga er vissulega hluti af þessu, sem ég tel að ætti að gefa gaum undir þessum kringumstæðum.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Það sem ég hef sagt hér í seinni hlutanum er frá eigin brjósti en ekki út frá rökstuðningi framsögumannsins. Ég hef lokið máli mínu.