144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:12]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála. Það þarf að vera gæðastaðall á þjónustu sem veitt er. Þess vegna höfum við lagt fram fyrirspurn og viljum að settur verði mælikvarði á mælingar á því hve hratt netið er. Þeir sem þekkja til og hafa skoðað það þá er einhverjum hraða lofað og maður kemst eiginlega aldrei á þann hraða. Þetta er svona eins og með bílana, jú ég kemst hugsanlega eða mögulega við bestu aðstæður á 180, en það er bæði ólöglegt og yfirleitt ekki hægt. Þannig að ég held að það sé tímabært að setja einhverjar reglugerðir um lágmarksþjónustu.

Það er líka gríðarlega mikilvægt að þetta er grunnþjónusta. Grunnþjónusta um rafmagn — ef hún er ekki í lagi á það ekki endilega að stangast á við þetta. Það er eitthvað sem einhver annar, til dæmis hv. þingmaður, getur þá lagt fram þingsályktunartillögu um, að það verði tryggt, en mér finnst ekki að eigi að tvinna þetta allt saman. Að sjálfsögðu er það lágmarksöryggiskrafa að allir sitji við sama borð með það hvort þeir hafi rafmagn eða rennandi vatn eða heilbrigðisþjónustu eða þessa grunnþætti sem við erum öll sammála um að séum tilbúin til að borga skatta fyrir.

Ég mundi líka mjög gjarnan vilja velta fyrir mér þeim möguleika hvernig við getum tryggt — nú viljum við til dæmis ekki einkavæða grunnþjónustuna með rafmagn, vonandi ekki alla vega, þess vegna finnst mér umhugsunarefni af hverju þetta er í einkavæðingarhöndum því að við munum aldrei sjá jafnræði, það er aldrei til hagsbóta fyrir þessi fyrirtæki að leggja internet-háhraðatengingu á afskekkta staði. Það er bara veruleikinn.