144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Það er ekki sérstaklega fjallað um nethlutleysi í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar enda er það í raun hugtak sem margir vissu ekki af fyrr en það var byrjað að tala um háhraðabraut á netinu. Þar liggur því kannski reginmunurinn og áherslumunurinn. Eins og ég sagði þá kallast þessi tillaga á við aðgerðaáætlun um jafnt aðgengi.

Mér finnst líka að þegar þetta mál kemur til nefndarinnar ætti hún að skoða grunnkröfur um grunnþjónustu og almenna þjónustu, t.d. að maður viti hvað maður er að kaupa. Þetta er oft mjög flókið, til dæmis vegna mismunandi símatenginga, það er erfitt að finna út hvað þetta mun kosta á endanum. Þannig að ég er mjög hlynnt því að þegar þetta fer fyrir nefnd að það verði skoðað sérstaklega og hvet nefndarmenn til þess að bæta við ef þeim finnst eitthvað vanta upp á.