146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[13:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Theodóra S. Þorsteinsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 sem lagt er fram af starfsstjórn sem situr tímabundið og breytingartillögur þar um. Hér er enginn meiri hluti og því er mjög sjálfsagt og eðlilegt að allir flokkar vinni sameiginlega að einni tillögu. Lagt var upp með það að markmiði að ná samkomulagi og það tókst. Því ber að fagna. Hv. nefndarformaður og flokkarnir sjö voru sammála um, svona að meðaltali, að setja aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið, löggæslumál, samgöngur, menntakerfið, og nemur fjárhæðin um 12 milljörðum kr. Áfram er þó afgangur af fjárlögum upp á tæpa 24 milljarða.

Áherslur Bjartrar framtíðar í þessu frumvarpi eru að bregðast við bráðavanda í heilbrigðiskerfinu og menntamálum. Vegna þess efnahagsástands sem verið hefur undanfarin ár hefur verið skortur á viðhaldi og nauðsynlegri aukningu fjármuna til ýmissa málaflokka. Sums staðar er komið að þolmörkum en hins vegar má vera ljóst að við þær aðstæður sem nú ríkja verða þingmenn að koma sér saman um málamiðlun og horfa til þess hvar skórinn kreppir helst og til þeirra verkefna sem brýnast er að ráðast í strax.

Hvað varðar menntamál eru talsverð vonbrigði að stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs fyrir háskólann skuli ekki vera fylgt eftir. Góðu fréttirnar eru samt þær að ráðið vinnur nú að því að útfæra hvernig unnið skuli að markmiðinu áfram og hvernig vinna eigi að því til lengri tíma. Mér skilst að stefnt sé að því að uppfæra stefnu ráðsins út aftur með vorinu, því skapast svigrúm og tækifæri til að leggja línur fyrir fjárlög ársins 2018 með það að markmiði að tryggja gæði og samkeppnishæfni íslenskra háskóla. Með stefnu ráðsins verður þannig kveikt á leiðarljósi fyrir löggjafann til að fylgja og munu fulltrúar Bjartrar framtíðar ekki skorast undan því.

Björt framtíð leggur einnig áherslu á að rétta af þann bráðavanda sem háskólarnir standa frammi fyrir og koma til móts við þá aukningu sem skólarnir þurfa. Jafnframt er rétt að lagfæra það ójafnræði sem Listaháskóli Íslands hefur staðið frammi fyrir saman borið við aðra háskóla landsins. Við leggjum áherslu á framlag til framhaldsskóla og þá sérstaklega til þess að styrkja verknám. Í breytingartillögum leggjum við til að aukið sé um 400 milljónir í þann málaflokk, sem er gott.

Heilbrigðiskerfið er ein þeirra grunnstoða sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi undanfarin misseri. Er þar af mörgu að taka, bæði í hefðbundnum viðhaldsverkefnum fasteigna, tækjakaupum og uppbyggingu þjónustu. Samkvæmt breytingartillögunni sem er lögð hér fram munu framlög til heilbrigðismála aukast um 5,2 milljarða á næsta ári umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi starfsstjórnarinnar. Við núverandi aðstæður verður ekki unnt að leiðrétta og bæta við öllu því sem til þarf en það er hins vegar brýn þörf að taka til gagngerrar endurskoðunar kerfi sem ekki sinnir þeim sem mest þurfa á að halda eins vel og unnt er í samfélagi sem hefur alla burði til. Fulltrúar Bjartrar framtíðar munu ekki láta sitt eftir liggja við það verkefni og leita samráðs fulltrúa annarra þingflokka og þeirra stofnana sem undir kerfið heyra.

Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í einstaka liði í þessum breytingartillögum, bæði vegna þess að vel hefur verið gerð grein fyrir þeim og einnig af þeirri ástæðu að ég hlustaði á upptöku á ræðum þingmanna frá því í fyrra og þetta eru eiginlega sömu umræður.

Hvað varðar samgöngur hefur talsvert vantað upp á að viðhaldi og nauðsynlegri uppbyggingu hafi verið sinnt á sviði samgöngumála. Það dylst engum að talsverða innspýtingu þarf til þess að snúa þeirri þróun við og vinna upp það sem rekið hefur á reiðanum á því sviði. Í breytingartillögu fjárlaganefndar er ætlunin að leggja 5,5 milljarða kr. til málaflokksins umfram það sem þegar var áætlað í frumvarpinu. Alþingi samþykkti nú í haust þingsályktunartillögu til samgönguáætlunar sem felur í sér misræmi milli samþykktrar fjármálaáætlunar og samgönguáætlunar um 15 milljarða kr. árið 2017 og um 13,5 milljarða kr. árið 2018. Alþingi þarf að bæta vinnubrögð sín og gæta þess að samgönguáætlun verði í samræmi við fjárheimildir hverju sinni, enda er það m.a. markmið nýrra laga um opinber fjármál að styrkja fjármálastjórn ríkisins. Við viljum benda á að viðamiklar fjárfestingar í Dýrafjarðargöngum og hvað varðar kaup á nýjum Herjólfi eiga að vera fullfjármagnaðar í langtímafjármálaáætlun og því á ekki að þurfa að koma til kasta Alþingis við að bæta við fjármagni í slíkar framkvæmdir. Þá er einnig mikilvægt að taka tillit til þess að nú þegar hefur skapast þensla á framkvæmdamarkaði, erfiðara er að tryggja framkvæmdir og tilboð sem gerð eru í ýmis verkefni og eru talsvert hærri en kostnaðaráætlanir gera ráð fyrir. Það er því full ástæða til að stíga varlega til jarðar varðandi kostnaðarsamar framkvæmdir til að hleypa ekki frekari þenslu af stað með tilheyrandi verðbólgu sem kemur svo niður á okkur öllum. Þá stöðu þekkjum við allt of vel frá fyrri árum og slíka óstjórn ber að varast.

Á þeim tíma sem fjárlaganefnd hefur haft til að koma sér saman um breytingartillögur hefur ýmislegt komið mér á óvart. Mig langar að nefna eitt, sem ég hef svo sem nefnt áður. Ég kallaði eftir yfirliti yfir fjárfestingar ríkisins, fjárfestingar í eigu fyrirtækja ríkisins, fjárfestingu sveitarfélaga, hversu margar íbúðir eru í byggingu í ár, næstu fimm árin, hótelíbúðir í byggingu og aðrar fjárfestingar á áætlun, svo sem atvinnuhúsnæði og slíkt. Sveitarfélögin eru auðvitað komin á fullt, eru að undirbúa úthlutun heilu iðnaðarhverfanna, mikil uppbygging er í atvinnuhúsnæði, íbúðauppbygging í þúsundatali, verið er að byggja íþróttahús, skólahúsnæði og hefja byggingu hjúkrunarheimila. Það er einn Landspítali á teikniborðinu og einhverjar stóriðjur við Keflavíkurflugvöll fyrir tugi milljarða. Það eru gríðarleg þenslumerki í samfélaginu. Það fyllir okkur ekki trausti að þær upplýsingar liggja ekki fyrir samandregnar. Allir eru sammála um mikilvægi þeirra. Ég ætla að leggja mig fram um það á þessu kjörtímabili og finna leið til að draga þær upplýsingar fram á einn stað og gera þær aðgengilegar. Það er ekki einungis mikilvægt fyrir okkur á þingi að fylgjast með þenslumerkjum og framkvæmdum í samfélaginu heldur er það nauðsynlegt fyrir t.d. Samtök iðnaðarins, Seðlabankann, Hagstofuna, Samband íslenskra sveitarfélaga o.fl. sem vilja skoða þessar upplýsingar til að samræma og skoða þenslumerki í hagstjórn okkar.

Fjárlagafrumvarpið er stærsta þingmál hvers vetrar og leggur grunn að fjármögnun grunnstoða samfélagsins. Það verður því að teljast svolítið varhugavert og kannski óábyrgt að upplýsingar af þessu tagi liggi ekki fyrir þegar önnur eins útgjöld og framkvæmdir eru lagðar til, sér í lagi vegna 13. gr. laga um þingsköp Alþingis þar sem kemur fram að fjárlaganefnd skuli annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga.