146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:43]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég verð að byrja á því að segja að síðustu dagar og vikur hafa verið afar lærdómsríkar. Fjárlaganefnd hefur fundað sleitulaust undir mikilli tímapressu við fordæmalausar aðstæður. Í fyrsta lagi erum við með starfsstjórn enn sem komið er. Sú staða flækir málin töluvert og gerir það að verkum að fjárlögin eru ekki stefnumótandi í raun. Stefnumótun bíður næstu ríkisstjórnar og nefndarmenn urðu að taka tillit til þess í sinni vinnu.

Í öðru lagi erum við í fyrsta sinn að vinna fjárlög út frá nýsamþykktum lögum um opinber fjármál. Þingmenn eru ekki þeir einu sem þurfa að setja sig inn í nýtt vinnulag heldur einnig stofnanir, ráðuneyti og aðrir aðilar sem að borðinu koma. Það er reyndar mín skoðun og okkar flestra að þetta vinnulag sé mun betra til framtíðar litið. Ný lög um opinber fjármála krefjast þess að gerðar séu ríkisfjármálaáætlanir til fimm ára. Stofnanir þurfa að gera sínar áætlanir til þriggja ára og ég gæti alveg séð það fyrir mér í framtíðinni að sá tími lengdist í fimm ár. Áætlanir þessar gera það að verkum að fyrirsjáanleiki í áætlunargerð verður meiri, meiri agi og meira gagnsæi. Fyrir okkur þingmenn tel ég að fyrirkomulagið muni auðvelda okkur fjárlagagerð í framtíðinni.

Í því samhengi langar mig til að benda á að nú fer meginstefnumótun fjárlaga fram á vorin þannig að ef menn vilja koma að sínum áherslum, hvort sem um er að ræða forstöðumenn stofnana eða samtaka, þingmenn eða aðra er rétt að gera það á þeim árstíma, ekki í lok desember. Ein af þeim praktísku breytingum sem verða með þessu á störfum hv. fjárlaganefndar er að nefndarmenn þurfa ekki lengur að setja ákveðnar upphæðir í breytingartillögum inn á ákveðnar stofnanir heldur á liði sem ráðuneytin skipta síðan niður eftir þörfum. Nefndin hefur því ekki beint úthlutunarvald en hefur auðvitað eftir sem áður töluverð áhrif á skiptinguna með því að leggja áherslur sínar fram í ræðu og riti sem eru auðvitað lögskýringargögn. Á þessu nýja fyrirkomulagi eru auðvitað kostir og gallar en ég tel að kostirnir vegi mun þyngra.

Virðulegi forseti. Framlagt frumvarp til fjárlaga er ansi bólgið ef svo má að orði komast og á sama tíma eru víða merki um hitnun í hagkerfinu. Við sitjum líka með vanfjármagnaða samgönguáætlun upp á 15 milljarða og greiðsluþátttökukerfi fyrir rúmlega 1 milljarð. Allir flokkar töluðu fyrir uppbyggingu innviða í kosningabaráttu sinni fyrir fáum vikum. Megináhersla allra flokka var á menntakerfið, samgöngukerfið og heilbrigðiskerfið. Vandinn við gerð fjárlaga var þessi: Við viljum byggja upp innviði, við viljum ekki auka þenslu í hagkerfinu og við erum með bólgið fjárlagafrumvarp sem mætir samt ekki kröfum allra. Tíminn sem þingmenn hafa til að klára fjárlög er nánast enginn þannig að samstaða verður að nást. Nákvæmlega þetta höfum við verið að glíma við. Ekki auðvelt verkefni, en gerlegt.

Að þessu sögðu ætla ég að vinda mér í að fjalla um breytingartillögur nefndarinnar. Við lögðum eins og fyrr segir megináherslu á uppbyggingu og styrkingu innviða okkar. Löggæslan og Landhelgisgæsla Íslands eru mikilvægar stoðir í samfélaginu. Þar er mikil þörf á auknum fjármunum. Ég hef heyrt stórar tölur í því sambandi og veit að þær eru ekki úr lausu lofti gripnar. Um þessi mál skapaðist talsverð umræða í nefndinni. Niðurstaðan varð að lokum sú að bæta 400 milljónum við tímabundið framlag til löggæslu. Framlagið bætist við tæplega 600 millj. kr. raunaukningu í frumvarpinu en því er ætlað að koma til móts við aukið álag, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Ástæða þess að nefndin komst ekki að samkomulagi um að bæta frekari fjármunum í málaflokkinn að þessu sinni er að á næstunni kemur fram löggæsluáætlun. Í henni er lagt mat á stöðu löggæslunnar og framtíðaruppbyggingu sem næsta ríkisstjórn mun væntanlega nota við gerð ríkisfjármálaáætlunar.

Varðandi Landhelgisgæsluna gerum við tillögu um 100 millj. kr. tímabundið framlag til málaflokksins. Tilgangurinn er að koma til móts við væntanlegt tekjutap Gæslunnar þar sem líklegt er að verkefni hennar á vegum Frontex dragist saman. Í fyrra námu sértekjur stofnunarinnar um 1,4 milljörðum kr. Svo kann að fara að tekjutapið verði minna en menn óttast og það væri auðvitað best ef svo yrði. Þess ber að geta að í frumvarpi til fjárlaga kemur fram á bls. 241 að stefnt skuli að fjölgun áhafna á varðskipum, þyrlum og flugvélum Landhelgisgæslunnar í samræmi við Landhelgisgæsluáætlun 2017–2021 svo tryggja megi viðunandi þjónustu og öryggi í löggæslu, eftirliti, leit og björgun í hafinu umhverfis Ísland og í úthafinu. Gert er ráð fyrir að hefja endurnýjun á þyrluflota Landhelgisgæslunnar árið 2019 samkvæmt fjármálaáætlun ríkisins.

Virðulegi forseti. Samgöngumálin voru rædd mjög ítarlega í nefndinni og greind með aðstoð Vegagerðarinnar. Það verður að segjast eins og er, ef ég á að vera alveg hreinskilin, að ég bjóst ekki við að nefndin næði sameiginlegri lendingu í þessum málaflokki, sérstaklega þar sem okkur vantaði 15 milljarða inn í fjárlög til að fara eftir samþykktri samgönguáætlun. En nefndarmenn náðu samkomulagi að lokum og samtals gerum við tillögu um að setja 4,6 milljarða framlag til samgöngumála, auk fjármuna sem fara í samgöngumál í fjáraukalögum. Við vitum öll að viðhaldi vega um land allt hefur verið verulega ábótavant í mörg ár. Á sama tíma hefur fjöldi ferðamanna aukist með tilheyrandi umferð, bæði um þjóðvegi og tengivegi. Slíkt ástand kallar á aukið fjármagn til málaflokksins.

Í umræðunni um samgöngumál ræddum við m.a. um áhyggjur af því að slíkar framkvæmdir myndu auka þenslu enn frekar í hagkerfinu. Ég tel að við þyrftum að gera nákvæmari greiningar á áhrifum samgönguframkvæmda á efnahagslífið, sérstaklega með tilliti til einstakra landshluta, því ekki er saman að jafna hvar framkvæmdir eru gerðar og um hvers konar framkvæmdir er að ræða. Þetta þurfum við að greina mun betur. Eitt af þeim verkefnum sem út af stóð í fjárlögum voru Dýrafjarðargöng, auk Herjólfs og hafnarframkvæmda. Að auki fengu nefndarmenn lista yfir ýmsar framkvæmdir sem búið var að skuldbinda. Við vorum sammála um að setja þessi verkefni á oddinn auk umtalsverðrar innspýtingar í viðhald vega um land allt, 2,4 milljarða. Að auki var samkomulag um framkvæmdir eins og t.d. að flýta gerð hringtorga á Reykjanesbraut fyrir ofan Reykjanesbæ en þar hafa orðið tvö banaslys á þessu ári. Þeim framkvæmdum er einfaldlega ekki hægt að seinka. Hið sama gildir um Reykjaveg í Bláskógabyggð, rannsóknir á Grynnslunum í Hornafirði, Dettifossveg, Skagastrandarveg og fleiri framkvæmdir.

Virðulegur forseti. Góðir skólar og góð menntun ættu að vera okkur öllum metnaðarmál þar sem það er lykill okkar að framtíðinni. Þá á ég við menntun í víðum skilningi. Við höfum lengi talað fyrir að við viljum styrkja stöðu iðn- og verkmenntunar á Íslandi. Þrátt fyrir það höfum við ekki staðið okkur sem skyldi í að styrkja verknámið sérstaklega, þrátt fyrir að framlög til framhaldsskóla hafi aukist jafnt og þétt hin síðari ár. Í tillögum okkar nú leggjum við fram 400 millj. kr. tímabundið framlag til framhaldsskólanna og markmið þess er m.a. að styrkja verknám almennt.

Háskólastigið þarf að styrkja og við gerum tillögu um 1,3 milljarða sem fara til háskóla og rannsókna á háskólastigi. Við skiptum framlaginu í potta til að koma til móts við þarfir háskólanna. Um 400 milljónir eiga að fara til endurnýjunar á búnaði og aðrar 400 milljónir eiga að styrkja rekstrargrunn skólanna. Þar vil ég sérstaklega nefna Bifröst sem á við verulegan rekstrarvanda að glíma sem og Listaháskóla Íslands. 60 milljónir eru síðan ætlaðar til fræðsluneta og símenntunarstöðva eins og t.d. Fræðslunets Suðurlands og Austurbrúar.

Matvælaframleiðsla er einn af vaxtarsprotum okkar hér á landi. Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi gegnir þar afar mikilvægu hlutverki. Húsakostur skólans er hins vegar í verulega slæmu ásigkomulagi, svo slæmu að Fasteignir ríkisins telja sig ekki geta tekið við þeim fyrr en byggingarnar hafi verið lagfærðar og komið í ásættanlegt ástand. Þess vegna ákváðum við að gera ráð fyrir 70 millj. kr. framlagi til endurbóta á húsnæði skólans og ég fagna því alveg sérstaklega.

Annað verkefni sem mér er kært og kemur fram í tillögum nefndarinnar er 30 millj. kr. framlag til Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands á Laugarvatni. Um er að ræða mótvægisaðgerð sem lofað var þar sem íþróttakennaranám var lagt niður við skólann sl. vor. Skólinn hefur í áratugi verið ákveðinn hornsteinn samfélagsins þarna. Í vor, þegar fyrirséð var að íþróttakennaranám yrði lagt niður á Laugarvatni, var stór íbúafundur haldinn með ráðherra, sveitarstjórnarfólki og fulltrúum Háskóla Íslands, auk þingmanna. Fulltrúi Ungmennafélags Íslands tók til máls á fundinum og sagði að UMFÍ hefði áhuga á að stofna lýðháskóla á Laugarvatni að danskri fyrirmynd, en þau hafa kynnt sér slíka starfsemi nokkuð vel. Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu um lýðháskóla og ég vil nota tækifærið hér og leggja áherslu á að þingið ætti að fylgja því máli vel eftir. Við vitum öll að menntakerfið okkar hefur ákveðna galla. Við þurfum meiri sveigjanleika, meiri fjölbreytni og í því eru fólgin afar spennandi tækifæri. Stofnun lýðháskóla á Íslandi væri t.d. liður í að bjóða upp á fleiri valmöguleika fyrir ungt fólk til að sækja sér menntun. Umræðan um lýðháskóla og stefnu okkar í þeim málaflokki kom upp í fjárlaganefnd á fundi sem við áttum með fulltrúum menntamálaráðuneytisins. Í framhaldi af þeim fundi var ákveðið að leggja til sérstakt fjármagn til þarfagreiningar á þessum málaflokki innan ráðuneytisins. Ég er sannfærð um að þarna eru sóknarfæri sem við eigum að nýta.

Frú forseti. Næst langar mig til að ræða eilítið um heilbrigðiskerfið og tillögur nefndarinnar hvað úrbætur varðar á því sviði. Útgjöld til heilbrigðismála í heildina á tímabilinu 2014–2016 verið aukin um 38,5 milljarða sem er 16% raunaukning. Framlög til Landspítalans hafa t.d. aukist frá árinu 2013 um ríflega 30%. Í framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir enn frekari aukningu á rekstrarframlögum til heilbrigðismála, þar af auknum framlögum til styrkingar á rekstri sjúkrahúsa og heilsugæslu hátt í 4 milljarða kr. og 1,5 milljarða vegna nýs rammasamnings um rekstur hjúkrunarheimila, samtals 7,3 milljarðar kr. Þetta er umtalsverð aukning, eins og sjá má af tölunum, en nefndin komst samt sem áður að þeirri niðurstöðu að þörf væri á að auka framlög til heilbrigðismála enn frekar.

Áður en lengra er haldið vil ég segja að þegar við tölum um heilbrigðiskerfið erum við ekki bara að tala Landspítalann og starfsemi hans. Landspítalinn okkar er hátæknisjúkrahúsið okkar sem þarf að geta tekið við okkar veikasta fólki, greint flóknustu tilfellin og gert erfiðustu aðgerðirnar. Þessa stoð þurfum við svo sannarlega að passa upp á en ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst umræðan snúast að of miklu leyti eingöngu um Landspítalann. Við þurfum að horfa á kerfið í heild sinni, allar einingar þess, eins og heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, heimahjúkrun, sjúkraflutninga og hjúkrunarheimili, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta þarf að virka vel og virka vel saman. Við höfum hingað til horft á þessa hluta heilbrigðiskerfisins út frá of þröngu sjónarhorni. Það er okkar ábyrgð að gæta þess að allir hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu um land allt og það er líka okkar ábyrgð að fara vel með fé ríkissjóðs. Það er ekki málið að auka stöðugt framlag til heilbrigðismála heldur að nýta fjármunina á réttum stöðum. Þá þurfum við að horfa til skilvirkni heilbrigðiskerfisins og bera það saman við skilvirkni annarra heilbrigðiskerfa. Í því samhengi þarf að taka mið af land- og lýðfræðilegum þáttum sem hafa áhrif á þörf landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu.

Velferðarráðuneytið fékk ráðgjafarfyrirtækið McKinsey til að vinna fyrir sig úttekt á starfsemi Landspítalans, rekstrarhagkvæmni hans og framleiðni vinnuafls á spítalanum. Að auki er í skýrslunni fjallað um nýtingu fjármuna og gæði veittrar heilbrigðisþjónustu og samspil Landspítalans við aðra hluta heilbrigðiskerfisins, þar á meðal heilsugæsluna og sérfræðilækna á eigin stofum. Niðurstöður skýrslunnar eru afar áhugaverðar og ég bendi áhugasömum endilega á að kynna sér innihald hennar en hana má finna á heimasíðu velferðarráðuneytisins. Við þurfum að skoða þessa hluti vandlega því að það er augljóst að við stöndum á tímamótum. Ég legg því áherslu á að skýrsla McKinsey verði nýtt til framfara en ekki stungið í skúffu. Þörf er á að gera verkáætlun út frá henni og vinna skipulega að því að bæta heilbrigðiskerfið okkar. Í lokaniðurstöðum skýrslu McKinsey segir m.a., með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir aðdáunarverða frammistöðu á síðustu árum er ekki allt eins og best verður á kosið í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það skortir skýrari verkaskiptingu milli hinna ýmsu veitenda heilbrigðisþjónustunnar og sömuleiðis stjórntæki sem gera kleift að stýra þróuninni. […] Nú þegar verið er að auka framlög til heilbrigðismála á Íslandi hefur skapast einstakt tækifæri til að takast á við þessi vandamál og tryggja að íslenska heilbrigðiskerfið veiti gæðaþjónustu á öllum sviðum á hagkvæman hátt.“

Frú forseti. Verkefnið sem við eigum fyrir höndum er viðamikið en ég veit að samstaða er um að bæta heilbrigðiskerfið. Slík samstaða getur skilað okkur ansi langt. Fjárlaganefnd gerir tillögu um að leggja til viðbótar um 2 milljarða inn í sérhæfða sjúkrahúsþjónustu en sú viðbót mun að mestu bætast við fjárveitingar til Landspítalans. Þar af fer um 1 milljarður til reksturs og 1 milljarður til endurbóta og viðhalds á húsnæði spítalans. Að auki eru 100 milljónir ætlaðar til að styrkja göngudeildarþjónustu og almennan rekstur Sjúkrahússins á Akureyri.

Fráflæðisvandi Landspítalans hefur verið mikið til umræðu en það er sá vandi sem skapast þegar ekki er hægt að senda fólk heim af spítalanum þar sem það á ekki völ á heimahjúkrun eða vist á hjúkrunarheimili. Það er mun dýrara að hafa fólk inniliggjandi á spítalanum og þess vegna er mjög aðkallandi að við leysum fráflæðisvanda spítalans sem fyrst með nauðsynlegum aðgerðum. Við gætum líka minnkað fráflæðisvandann með því að nýta kragasjúkrahúsin, þá á ég við Akranes, Selfoss og Suðurnes, betur á þessu sviði sem og til einfaldari aðgerða, t.d. til að stytta biðlista í aðgerðir.

Nefndin fékk fulltrúa Landspítalans á sinn fund sem og fulltrúa velferðarráðuneytisins til að greina þörfina og hvernig mætti koma sem best til móts við hana. Í framhaldinu var ákveðið að leggja fram tillögur um að bæta t.d. 150 millj. kr. framlagi til heimahjúkrunar hjá heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og einnig er gert ráð fyrir 700 millj. kr. framlagi til hjúkrunar- og dvalarrýma. Þar af eru 500 millj. kr. ætlaðar til reksturs heimila og 200 millj. kr. til átaks við að breyta fjölbýlum á hjúkrunarheimilum, sem sagt tví- og þríbýlum, í einbýli. Flest fjölbýli á hjúkrunarheimilum eru fyrst og fremst í Stykkishólmi og á Hornafirði. Gerð er tillaga um að aðrar heilbrigðisstofnanir sem veita almenna sjúkrahúsþjónustu fái samtals 415 millj. kr. tímabundið framlag. Þar má t.d. nefna Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem lenti á árum áður í gríðarlegum niðurskurði. Þó að framlög til stofnunarinnar hafi aukist aftur hin síðari ár hefur þjónusta við ferðamenn vegna umferðar um flugstöðina aukist verulega. Á flugstöðvarsvæðinu starfa þúsundir manna sem að hluta til búa ekki á svæðinu en þurfa samt sem áður þjónustu hjá heilbrigðisstofnuninni. Íbúum á svæðinu hefur einnig fjölgað gríðarlega upp á síðkastið eða um 8%, og útlit er fyrir enn frekari fjölgun samhliða umfangsmiklum framkvæmdum vegna flugstöðvar og ýmiss konar iðnaðarstarfsemi, svo eitthvað sé nefnt. Framlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í frumvarpinu voru ekki í samræmi við aukna þjónustu og þörf á svæðinu og úr því þurfti að nauðsynlega að bæta. Hið sama gildir um Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Sú stofnun á við verulegan rekstrarvanda að etja sem er að stórum hluta til kominn þegar Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja var sameinuð starfseminni. Henni fylgdi mikill skuldahali sem erfitt hefur verið að vinna á. Suðurlandið er mikið ferðamannasvæði. Erlendir ferðamenn fara þar um en á svæðinu eru líka fjölmennar sumarhúsabyggðir sem draga að sér mikinn fjölda fólks sem þarf að sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu. Íbúafjöldinn á svæðinu segir lítið til um raunverulega þjónustuþörf.

Hæstv. forseti. Ég sé að ég er langt komin með ræðutímann og ætla að fara stytta mál mitt en ég vil að lokum segja þetta: Það er ekki sjálfgefið að fjárlaganefnd hafi náð að afgreiða fjárlög í sátt út úr nefndinni. Allir þurftu að kyngja hlutum sem þeir áttu erfitt með, í nafni sátta og samkomulags. Ég er stolt af því að hafa fengið að taka þátt í þessari vinnu og þakka félögum mínum í nefndinni kærlega fyrir afar ánægjulegt samstarf. Formaður nefndarinnar, Haraldur Benediktsson, á sérstakan heiður skilinn fyrir sitt framlag og ég hef engar áhyggjur af því að hann ofmetnist við þetta hrós.