146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir andsvarið.

Það er rétt, þetta hefur verið áhyggjuefni í mörg ár, sálfræðiþjónusta og geðheilbrigðisþjónusta almennt í heilbrigðiskerfinu. Á heilsugæslustöðvum erum við að feta fyrstu skrefin í þessu almennt með því að á síðasta ári voru veittar heimildir til þess að ráða sálfræðinga í heilsugæsluna. Við verðum þess áskynja í þeim sveitarfélögum þar sem framhaldsskólar eru starfandi að áhyggjur skólastjórnenda eru miklar af háu brottfalli nemenda. Þessi tímamót í lífi ungs fólks, jafnvel þau umskipti að fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla, eru mikill umbrotatími. Þetta eru mjög erfið viðfangsefni sem skólarnir hafa brugðist við með ýmsum hætti, sumir hafa jafnvel í sínum erfiðleikum breytt stöðum námsráðgjafa í einhvers konar sálfræðiþjónustu, en þetta er mikilvægt atriði.

Varðandi það hvort við getum skyldað Landspítalann til þess að gera þetta þá hugnast mér það nú ekki. Ég held að við getum ekki skyldað Landspítalann til þess. Ég held hins vegar að eitt af hlutverkum þjóðarspítalans, það þurfum við að formgera betur, sé að veita öllu landinu þjónustu, á forsendum landsbyggðarinnar og í nærumhverfi íbúanna. Þetta hefur verið gert í nokkrum mæli, mest þó með óformlegum hætti, en ég held að við ættum að formgera þetta. Ég held að það komist ekki á þetta lag nema við gerum þetta í góðu samkomulagi við Landspítala.