146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:29]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Þegar ljóst var að kosningum yrði flýtt og kosið yrði að hausti voru margir þingmenn, og ég þar með talinn, sem höfðu miklar áhyggjur af því hvað þetta myndi þýða í sambandi við vinnu við fjárlög. Þá kynnti ég mér m.a. þá aðferðafræði sem er viðhöfð í Noregi þar sem alltaf er kosið að hausti og fjárlög eru meira og minna tilbúin frá fyrra þingi og hafa verið unnin pólitískt með aðkomu allra flokka, þannig að það er pólitískur undirbúningur fyrir fjárlögin sem síðan eru unnin mjög hratt á nýju þingi eftir kosningar. Auðvitað erum við á nýjum stað að því leytinu til að fjármálaáætlun, sem er vissulega sú fyrsta lögð fram af fráfarandi ríkisstjórn og er þar af leiðandi kannski að miklu leyti pólitískt barn fráfarandi ríkisstjórnar, en umræðan um fjármálaáætlun er pólitísk. Hún er með þátttöku þingsins alls. Slík vinnubrögð ættu að þýða breiðari aðkomu allra flokka í þinginu, ekki að smáatriðum eins og við erum vön þar sem þingmenn hafa hreinlega verið að lesa niður lista um möguleg verkefni í brúargerð til dæmis, sem hafa verið sett niður í röð eftir kjördæmum og menn hafa verið að velja þessa brú fram yfir aðra, heldur í stefnumörkuninni um hvernig brýr eigi að vera eða á hvaða svæðum sé mest þörf á uppbyggingu í brúm. Ég held því að sumu leyti að svona stífari og strangari vinnubrögð séu ekki endilega merki um að hlutirnir verði afstjórnmálavæddir heldur sé hreinlega verið að færa aðkomu stjórnmálanna á annan stað. Gleymum því ekki að ráðuneytin eru auðvitað verkfæri stjórnmálanna. (Forseti hringir.) Alþingi er löggjafarvald en ekki framkvæmdarvald.