149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

[10:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég get svarað því til að unnið er að undirbúningi þessa máls. Ég vænti þess að það verði, eins og um var beðið, tilbúið í októbermánuði og geti þá komið fram fyrir 1. nóvember. Um skattleysi uppbóta á bætur eða lífeyrisgreiðslur er það að segja almennt að ég held að við munum í tengslum við málið þurfa að velta því fyrir okkur hvort máli skiptir að hafa samkvæmni í skatta- og bótakerfunum hjá okkur hvað varðar skattalega meðhöndlun. Ég get tekið undir með flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar um að þetta sé ágætisleið til að létta enn frekar undir með því fólki í landinu sem hefur úr minnstu að spila, vegna þess að sannarlega eru það einmitt þeir sem hafa hvað minnst á milli handanna sem fylla þann hóp sem fær þær greiðslur sem þarna er um að ræða og skattleysi þeirra getur létt enn frekar undir með þeim. Væntanlega munum við í umræðu um frumvarpið þegar það kemur fram þurfa að ræða hvort þetta sé leiðin sem við viljum fara til að teygja okkur betur til þeirra sem eiga í hlut eða hvort aðrar aðferðir gætu gagnast betur. Við veltum því fyrir okkur um leið, vænti ég, hvort einhverjar tilteknar lífeyrisgreiðslur eða uppbætur eins og hér eiga við eigi að vera skattlausar meðan allt annað er skattlagt.