149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því á hvaða vegferð hv. þingmaður er. Þegar hér er rætt um að hlutdeild þjóðarinnar í afkomu útgerðarinnar sé ekki nægilega há spyr ég hv. þingmann hvaða breytingar hafi orðið frá því að hv. þingmaður gegndi embætti fjármálaráðherra. Það er nákvæmlega sama hlutdeild nú sem við erum að tala um og var þegar hv. þingmaður gegndi því embætti.

Ég vil sömuleiðis spyrja: Gerir hv. þingmaður ráð fyrir og óskar eftir að við hækkum t.d. veiðigjald á makríl? Hann er að vísu ofveiddur stofn. Er hv. þingmaður að tala um að við hækkum það um 2.000% eins og hér er nefnt? Á hvaða leið er hv. þingmaður? Ég bið um rökstuðning fyrir því að halda því sífellt fram að þetta frumvarp geri ráð fyrir að þingmenn ákveði verð á fiski. Reiknistofninn er ákveðinn þannig að frá aflaverðmæti er dreginn breytilegur og fastur kostnaður. Aflaverðmætið (Forseti hringir.) er uppgefið af Fiskistofu til ríkisskattstjóra. Þingið kemur ekkert nálægt því. Hvernig rökstyður hv. þingmaður þessa rangfærslu?