149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við og má hafa mörg orð um þessa ræðu hans. Hann fer sérstaklega í það sem hér hefur áður verið rætt, hina svokölluðu Færeyjatilvísun, og sjálfsagt að fara aðeins yfir það. Þegar hér er fullyrt að Færeyingar fái 70% hærra gjald fyrir afla sinn en Íslendingar, spurt hvers vegna þrisvar sinnum hærra verð sé í veiðileyfum þar en hér og fullyrt að það sé lengra á miðin fyrir Færeyinga spyr maður á móti: Af hverju eru Færeyingar ekki að taka gjald fyrir þorsk eða aðrar fisktegundir í heimasjó? Hvað er svona frábært við þetta kerfi?

Í annan stað vil ég spyrja hv. þingmann úr því að hann talar fyrir því að taka upp færeysku leiðina: Er hann því meðmæltur að laun sjómanna verði dregin frá veiðigjaldi á Íslandi eins og gert er í Færeyjum? Talar hv. þingmaður fyrir nýliðun í greininni en á sama tíma uppboði? Þá spyr ég: Hvaða hindranir ætlar hv. þingmaður að draga inn í uppboðskerfið ef hann ætlar ekki að koma í veg fyrir að sá sterkasti gomsi allt saman í sig sem boðið verður upp?

Þetta eru grundvallarspurningar sem þingmenn verða að svara sem koma hingað og mæra færeyska fiskveiðistjórnarkerfið sem hefur lagt heimamiðin í rúst. Á sama tíma og talað er fyrir þeirri aðferð sem þar er viðhöfð verða þeir að taka afstöðu til ákveðinna grundvallarþátta sem eru gjörólíkir við fiskveiðistjórnina í Færeyjum og hér.

Ég bíð spenntur eftir að heyra afstöðu þingmannsins til (Forseti hringir.) þessara tveggja spurninga.