149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er engu nær um afstöðu hv. þingmanns til þess hvort við eigum að gera íslenskum fyrirtækjum sem starfa í sjávarútvegi sambærileg skilyrði þegar þau eiga að bjóða í þann afla sem hv. þingmaður vill setja á markað, í uppboð. Erum við að tala um að jafna skilyrði íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, t.d. varðandi kolefnisgjald, tryggingagjald og gagnvart launaþátttöku sjómanna í veiðigjaldi? Er hv. þingmaður að tala fyrir þessu?

Ég vil gjarnan heyra það áður en ég tek afstöðu til þeirra hugmynda sem hér eru settar fram. Með sama hætti geri ég kröfu til þess, þegar við erum að ræða mismunandi uppboðskerfi, að fá svör um það hvort stjórnmálamenn í þessum sal ætla að taka að sér að stýra uppboðunum á grundvelli sinna sjónarmiða. Hver eru þau þá? Hvernig ætla þeir að stjórna því hverjir fá að bjóða í hvaða afla? Hvaða tæki ætla menn að nota? Hvaða skilyrðingar ætla menn að setja? Má stórt fyrirtæki bjóða núna og lítið næst? Má fyrirtæki fyrir austan bara bjóða? (Forseti hringir.) Hver er hugsunin í þessu?