149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að hlusta á hv. þingmann, margt sem ég hefði viljað spjalla um við hann en maður þarf að velja úr í stuttu andsvari. Mig langar sérstaklega að koma inn á það sem hv. þingmaður kom að í blálok ræðu sinnar, áhyggjur yfir svokölluðu milliverði, þ.e. við erum að greina á milli veiða og vinnslu eins og hér er lagt til. Það efni er mér dálítið hugleikið og mig langar að ræða þetta við hv. þingmann. Ég veit að hv. þingmaður er mjög áfram um að regluverk sé skýrt og ferlar góðir þegar að þessu kemur.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann um þá ákvörðun að færa framkvæmdina af þessu í hendur ríkisskattstjóra. Við eigum náttúrlega lög um milliverðlagningu og styðjumst fyrst og fremst við gögn sem er skilað inn til ríkisskattstjóra. Getur því ekki einmitt verið þveröfugt farið þegar það er orðið brot á skilum til skattstjóra ef upp kemur einhvers konar óeðlileg verðlagning með öllum þeim ákvæðum sem því fylgir, röngum skilum inn til skattstjóra? Sé þetta staðreynd, sem við svo sem vitum ekki um, eru minni líkur á því að þetta gerist en meiri af því að gögnunum er skilað inn. Það er haft samband við Fiskistofu, við vitum verð á mörkuðum og sjáum bókhaldsgögn fyrirtækisins. Það að hrófla við þeim áður en þeir skila þeim til skattstjóra (Forseti hringir.) er alvarlegt brot á lögum.