149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld. Það er ljóst að sitt sýnist hverjum um hvernig hafi tekist til með samningu þessa frumvarps út frá hagsmunum þjóðarinnar. Það er von á áframhaldandi áhugaverðum skoðanaskiptum hér í dag.

Það er rétt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að sjávarútvegurinn heldur enn mikilvægi sínu í verðmætasköpun þjóðarinnar og það þrátt fyrir breytt landslag í atvinnulífi þjóðarinnar síðustu ár og áratugi. Það er íslenskri þjóð mjög mikilvægt að svo verði áfram. Það mikilvægi þarf að endurspeglast í allri nálgun þegar fyrirkomulag gjaldtöku í sjávarútvegi er rætt. Það þarf að endurspeglast í þeim tillögum til breytinga í gjaldtökunni sem sumir mæla fyrir, sú sem hér stendur er þeirra á meðal, og það þarf að endurspeglast hjá þeim sem verja núverandi fyrirkomulag.

Það er ekki samasemmerki milli þess að vilja breytt fyrirkomulag í gjaldtöku og þess að vilja uppstokkun á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Stefna Viðreisnar í þessum málum er skýr. Í grunnstefnu flokksins segir, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar og þær ber að nýta á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Greiða skal markaðsverð fyrir aðgang að þeim.“

Enn fremur er í stefnu Viðreisnar kveðið á um að auðlindagjöld renni að hluta til innviðauppbyggingar. Við viljum að tekjur vegna auðlindagjalda, hvort sem er í sjávarútvegi, orkuiðnaði, ferðaþjónustu eða annarri auðlindatengdri starfsemi, renni að hluta til innviðauppbyggingar í heimabyggð.

Stærstur hluti tekna ríkissjóðs af slíkum auðlindagjöldum verður til á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að hluti þeirra renni til innviðauppbyggingar á forræði viðkomandi sveitarfélaga.

En það er rétt að byrja yfirferðina með því að tiltaka það sem jákvætt er í þessu frumvarpi að mínu mati. Í fyrsta lagi má þar tiltaka þá breytingu að samkvæmt frumvarpinu tekur álagning veiðigjaldsins til nýrri upplýsinga en nú er. Þessi breyting er tilraun til að færa gjaldið nær raunverulegu virði aflans á hverjum tíma. Ég segi tilraun því að þótt breytingin hvað varðar tímasetninguna skipti máli og sé jákvæð er mat á virði aflans sem grunnur eða reiknistofn veiðigjalds engu eðlilegri eða réttari í þessu frumvarpi en verið hefur eða nú er. Þó að álagning veiðigjaldsins taki mið af nýrri upplýsingum en áður, eða nú er, er ekki verið að hverfa frá þeim höfuðgalla núverandi kerfis að frekar er um viðbótarskatt að ræða en raunverulegt auðlindagjald.

Ég heyrði orðaskipti kollega minna í ræðustól áðan þannig að þetta er greinilega óútkljáð. Ég vænti þess að þetta sé eitt af því sem verður skoðað í þinglegri meðferð.

Áfram á jákvæðum nótum. Í annan stað er verið að draga línu gjaldtökunnar við borðstokkinn ef svo má segja. Það er sem sagt verið að tengja gjaldið við réttinn til að veiða en ekki við vinnsluna. Þetta er jákvætt og þetta er réttlátt en þarna koma þó einnig í ljós þeir verulegu ágallar sem eru á frumvarpinu og lúta að útreikningum á stofni veiðigjaldsins og þar með gjaldtökunni.

Til að reyna að bæta úr þeim annmörkum sem tengjast þessari aðferðafræði við að finna gjaldstofninn eru síðan í frumvarpinu tilgreindar ýmsar aðferðir sem allar eiga það sameiginlegt að vera handstýrt. Það má taka dæmi af því hvernig þeirri áskorun er mætt að meðhöndla fastan kostnað í samþættu fyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem bæði er með veiðar og vinnslu, hvernig á að skipta á milli útgerðarhlutans og vinnsluhlutans. Hér er leitað í það sem er ekki hægt að kalla annað en tilviljunarkennda lausn, þ.e. afskriftir sinnum tveir. Enginn veit hvað kemur út úr þeim útreikningum og það verður ekki hægt að lesa í þau gögn fyrr en við álagninguna árið 2020.

Frú forseti. Það er hægt að deila um margt í þessu samhengi en það er víst að við deilum ekki um að skoðanir fólks á veiðigjöldum, ekki síst í þingsal, eru ólíkar, fyrst og fremst kannski hvað varðar upphæð gjaldtökunnar en ekki síður um aðferðafræðina. Hvað varðar það síðarnefnda, aðferðafræðina, teljum við í Viðreisn einn helsta útgangspunktinn vera að finna sanngjörnustu leiðina til að innheimta gjaldið, þetta gjald sem við erum þrátt fyrir allt að mestu sammála um að greiða beri fyrir afnot af auðlind þjóðarinnar.

Stefna okkar í Viðreisn er skýr. Við teljum eðlilegt og sanngjarnt að gjaldtöku sé þannig hagað að hún endurspegli á hverjum tíma raunverulega afkomu fyrirtækjanna í greininni, ekki að misvitrir stjórnmálamenn ráðskist með það eftir því hvaðan vindar blása hversu hátt gjaldið eigi að vera. Besta leiðin að okkar mati til að tryggja þetta er að gera annars vegar tímabundna samninga við fyrirtæki í sjávarútvegi og hins vegar að gjaldtakan byggi á markaðsvirði á hverjum tíma með því að setja tiltekinn, lítinn hluta kvótans á uppboð á hverju ári til að finna viðmiðunarverð. Gjaldtakan yrði síðan í samræmi við það viðmiðunarverð, með öðrum orðum yrði hún byggð á raunverulegu markaðsvirði aflans.

Ég nefndi tímabundna samninga. Í athugasemdum frumvarpsins sem við ræðum hér er sérstaklega vísað til skýrslu svokallaðrar auðlindanefndar sem starfaði um aldamótin. Nefndin var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem þá höfðu fulltrúa á þingi og hafði til umfjöllunar allar auðlindir sem voru eða kynnu að vera þjóðareign, eins og það var orðað, en fjallaði reyndar hvað mest um nytjastofna sjávar. Það er sem sagt vísað til þessarar skýrslu um að upptöku veiðigjalds í sjávarútvegi megi rekja til tillagna nefndarinnar. Í þeirri setningu sem vitnað er í úr tillögunum er lögð áhersla á bein tengsl milli varanleika heimilda og gjaldtöku. Þetta er grundvallaratriði.

Ríkisstjórnin vísar í því plaggi sem við ræðum hér í þessa setningu en ákveður engu að síður að veiðigjaldið verði eftir sem áður endurgjald fyrir ótímabundinn rétt eða afnot. Þetta er veigamikið atriði þegar kemur að því að ákvarða svo það sé hafið yfir allan vafa hvort hér er um að ræða þjóðareign eða eign útgerðarinnar.

Á síðasta kjörtímabili, þegar að störfum var þverpólitísk nefnd Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi sjávarútvegsráðherra, formanns Viðreisnar, um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni, lögðu bæði fulltrúar Framsóknar og Vinstri grænna í nefndinni áherslu á að um tímabundin afnot væri að ræða og að það þyrfti að endurspeglast í mögulegri sátt um málið. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni var sá eini sem ekki tók af skarið með það á þeim tíma sem nefndin starfaði.

Sú sem hér stendur var fulltrúi Viðreisnar í umræddri nefnd. Þar lagði ég fram minnisblað með tillögu eða hugmynd að umræðugrundvelli þess efnis að gerðir yrðu langtímasamningar milli útgerðarinnar og ríkisins á einkaréttarlegum grunni en jafnframt tryggt að gjaldtaka fyrir nýtingu hinnar sameiginlegu auðlindar endurspeglaði arðsemi greinarinnar á hverjum tíma. Sú hugmynd byggði að hluta til á sjónarmiðum sem Viðreisn hefur haldið á lofti en tók jafnframt mið af vinnu starfshóps Guðbjarts heitins Hannessonar úr tíð fyrri vinstri stjórnar og frumvarpsdrögum Sigurðar Inga Jóhannssonar frá þarsíðasta kjörtímabili þar sem lagt var til að gerðir yrðu nýtingarsamningar til 23 ára við núverandi handhafa aflaheimilda.

Þessi vinna, eða þær tillögur sem hugmyndin byggir á, á það sameiginlegt að endurgjald komi fyrir tímabundin veiðiréttindi. Tilgangurinn með afmörkun veiðiréttinda til ákveðins tíma var fyrst og fremst sá að ná fram óumdeilanlegri viðurkenningu á þjóðareigninni. Tímabundinn afnotaréttur er forsenda þess að ná megi tveimur afar mikilvægum markmiðum í löggjöf um þessi efni, annars vegar að lagareglurnar endurspegli með alveg ótvíræðum hætti sameign þjóðarinnar og hins vegar að þær megi stuðla að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.

Með þessu veiðigjaldafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem við ræðum nú, þar sem í engu er nefnt mikilvægi þess að um tímabundin afnot á þjóðarauðlindinni er að ræða, er ljóst að bæði Vinstri græn og Framsókn eru á harðahlaupum frá fyrri kröfu um tímabundin afnot til að festa í sessi þá almennt viðurkenndu staðreynd að sjávarauðlindin er þjóðareign.

Frú forseti. Útgangspunkturinn er að náttúruauðlindir Íslands eru sameign þjóðarinnar. Viðreisn leggur m.a. áherslu á að fá skýrt auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Í umræðunni hér viljum við fyrst og fremst leggja áherslu á að gjaldtakan endurspegli þá staðreynd að hér er um þjóðareign að ræða með því að gera úthlutun á aflaheimildum tímabundna með langtímasamningum. Í því frumvarpi sem við ræðum hér koma orðin sameign eða þjóðareign hins vegar hvergi fyrir og ekkert er heldur fjallað um tímabundnar heimildir eða afturkallanleika þeirra. Auk þess höfum við, eins og ég hef farið yfir, lagt áherslu á að hluti aflaheimilda sé boðinn upp til að ná sanngjarnri og eðlilegri verðlagningu fyrir auðlindina. Hér er hins vegar enn viðhaldið pólitísku eignarhaldi á verðlagningu og þar með greiðslugrunni sem gjaldtakan byggir á. Það er í raun illskiljanlegt að fyrirtæki í sjávarútvegi geri ekki alvarlegar athugasemdir við þessa nálgun. Það mætti ætla að sú óvissa sem pólitískt inngrip hefur í för með sér umfram það að láta markaði ráða verðlagningunni og fá þannig bæði gegnsæi og fyrirsjáanleika, væri sjávarútvegsfyrirtækjum þyrnir í augum.

Viðreisn mun halda áfram að berjast fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef nefnt hér. Ég bind þrátt fyrir allt vonir við að þau hljóti góðan hljómgrunn í meðförum þingsins á þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um veiðigjald, verði a.m.k. grunnurinn að umræðu sem vonandi verður efnt til með það að markmiði að vinna að hagsmunum þjóðarinnar.