149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég játa að ég skil þetta ekki alveg fullkomlega enn þá en þar er nú mögulega meira við mig að sakast en hv. þingmann. Við erum með 100% af aflaheimildum og gefum okkur að hv. þingmaður sem ætlar ekki að setja nýja kerfið inn í einu vetfangi taki 5% eða segjum 10% og setji í þetta uppboð en það á ekki að vera tvöfalt kerfi. Er hv. þingmaður þá að segja að af hinum 90% komi engin gjöld í ríkissjóð en aðeins eigi að koma gjöld í ríkissjóð af þeim hluta sem fer í uppboð hverju sinni? Hvað verður um veiðigjöldin fyrir stokkinn af því sem fyrirtækin hér sækja í sjó ef bara á að vera gjald fyrir þann hluta sem hv. þingmaður vill setja á uppboð? Þurfa ekki að vera gjöld þar?

Þetta hefur verið gert og við eigum að læra af reynslunni. Ég nefni Eistland í þessu samhengi. (Forseti hringir.) Þar var farið í uppboð og markaðurinn dálítið látinn ráða. Það var mikil samþjöppun þegar 10% aflaheimilda voru boðin út, gjaldþrot fyrirtækja o.s.frv. Við eigum að læra af því og stíga varlega til jarðar og þó að núna sé samþjöppun er ekki endilega lausnin að taka allar hömlur burt.