149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:26]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir prýðisræðu. Við erum að mörgu leyti mjög sammála í þessum málum. Ég hjó eftir því að hún hefur sömu áhyggjur og ég af minni útgerðum — nú þorir maður varla að segja litlar og meðalstórar, því að það er orðið frasi. (LRM: Góður frasi.) En mig langar að beina spurningu til þingmannsins út af því að við erum saman í atvinnuveganefnd. Hv. þingmaður sem ég var í andsvari við áðan, Haraldur Benediktsson, talaði um það, þegar ég spurði hann um kosti breytinga, að að þessu yrðum við í atvinnuveganefnd að vinna. Þá er ég að tala um frítekjumark eða afslátt sem litlum útgerðum er veittur, sem er í frumvarpinu, held ég, 20% af 4,5 milljónum og 15% af einhverju meira, sem er, ég þori nú varla að segja það, mjög lítið.

Er það leiðin til þess að hækka þá prósentu? Eða í hvaða leið gætum við unnið í sambandi við það að koma til móts við þessar minni útgerðir? Ég nefni það sem var tekið úr sambandi fyrir rúmu ári, sem var vaxtaafsláttur, getum við farið að skoða það á ný? Því að sannarlega eru margar af þessum útgerðum mjög skuldsettar. Eða hvað sér þingmaðurinn í stöðunni? Út frá hvaða punkti (Forseti hringir.) gætum við unnið í sambandi við það að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir?