149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta þurfum við að glíma við í atvinnuveganefnd með þeim sem við köllum fyrir nefndina og auðvitað með sjávarútvegsráðherra. Þessir afslættir eru ekki háir, 20% af 4,5 milljónum og 15% af næstu 4,5 milljónum. Þetta gengur upp allan skalann. Það eru allir að fá þetta, stærstu frystitogarar og bara allir. Það finnst mér ómarkviss meðferð á fé til að veita þessa persónuafslætti. Ég held að það þurfi að afmarka það miklu frekar. Hvar línan verður dregin skal ég ekki segja til um, en mér finnst að það þurfi að afmarka þetta. Við þurfum að finna út hvar þörfin er brýnust og skoða möguleika á þrepaskiptingu. En ekki er hægt að segja nákvæmlega hvernig hún myndi líta út. Þetta frumvarp sem kom fram í vor var með þeim kosti að 300 milljónum, minnir mig, var bætt í þessa afslætti og miðað var við að þeir færu eingöngu til þeirra sem greiddu 30 milljónir og minna á ári í veiðigjöld. Hvort það sé endanleg niðurstaða skal ég ekki segja til um, en við þurfum bara að skoða hvar þessi lína myndi liggja og hvernig við nýtum þá þessa peninga. Það er búið að viðurkenna að munur sé á möguleikum stórra útgerða og lítilla útgerða í rekstrarhagkvæmni og hve miklar aflaheimildir viðkomandi hefur.