149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:37]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjald og ég vil fara aðeins í smásöguskýringar. Um leið vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ræðu og þær ræður sem ég hef hlustað á hér í dag. Þegar ráðherrann var að halda sína ræðu fór hann svolítið í söguna. Mig langar aðeins að fara yfir söguna vegna þess að ég man svolítið aftur í tímann í þessum málum, í sjávarútvegi.

Ég var farinn að hlusta á fréttir fyrir 1970 og ég man eftir því að á þeim árum var hér kraftmikill sjávarútvegsráðherra. Þá var talað um að togari kæmi í hverja byggð og þá var ekkert kvótakerfi. Þá var ekki farið að stofnmæla fisk þannig að veitt væri ráðgjöf. Tímarnir voru frekar frjálsir hvað það varðar.

Á þessum tíma, þegar togari var í hverri byggð, fór þetta ekki mjög vel. Það gekk sums staðar vel en annars staðar ekki. Og þannig var það með útgerðina, bæði stóra og smáa, í kringum landið á þessum tímum, þegar ég var að byrja að fylgjast með í fréttum, að það gekk mjög misjafnlega. Og hvað var gert þegar þetta gekk svona misjafnlega? Þegar verr gekk var þetta meira og minna í fanginu á hinu opinbera, á ríkinu, og oft var brugðið á það ráð að fella gengið til að rétta hag útgerðarinnar við, til þess að útflutningurinn gæti gengið og greinin haldið áfram. Og hver bar skaðann af þeim gengisfellingum? Jú, það var fólkið í landinu, það var þjóðin.

Svona gekk þetta áfram og ég man eftir því þegar ég sjálfur fer á sjó, upp úr 1980, að þá voru menn farnir að velta vöngum yfir því hvað væri til ráða. Árið 1984 er kvótakerfið sett á í svipaðri mynd og það er í í dag. Einhverju áður en það var gert er farið að mæla stærð fiskstofna og ráðleggja hvað skuli veitt úr hverjum stofni fyrir sig. Árið 1991, eða um það leyti, er kominn kvóti á allar tegundir í stóra kerfinu, sem við köllum svo í dag. Árið 1995 er settur kvóti á krókaaflamarksbáta. Þeir höfðu þá árin þar á undan verið í eins konar banndagakerfi, sem kallað var. Árið 1995 er settur kvóti á krókaaflamarksbáta; þetta var þá bara þorskur en skömmu síðar á fleiri tegundir, ýsu, steinbít og aðrar slíkar tegundir. Nú eru nánast allar tegundir komnar í kvóta.

Reynslan af þessu, í ljósi sögunnar, er sú að greinin fór að ganga vel. Hún fór að verða sjálfbær. Ég man eftir því að mikil breyting varð — af því að ég man eftir þessu áður en kvótakerfið var sett á — og maður fór að geta gert einhver plön, þeir sem voru að gera út. Ég tala um sjálfbærni: Þegar framsalið kom á gátu menn, ef þeir urðu fyrir tjóni eða þurftu að fjárfesta í einhverju, leigt kvóta til að fjármagna það sem þurfti ef það var ekki mjög stórt. Menn þurftu þá ekki að fara í bankann og slá víxil eins og margir þurftu að gera við misjafnar móttökur. Og ef maður þurfti eftir sem áður að fara í lánastofnanir mætti manni annað viðmót; jafnvel að manni væri boðið kaffi sem ekki hafði áður staðið til boða. Rekstrarskilyrði útgerðarinnar gjörbreyttust á þessum árum, við þessa breytingu.

Svo líða árin og útgerðir fara að sýna betri afkomu. Jú, jú, ég man eftir því að talað var um áhyggjur af samþjöppun. Ég man eftir því fyrst þegar ég var á þingi, fyrir fimm árum, að ég kom í ræðu og talaði um samþjöppunina. Ég er sömu skoðunar og ég var þá þegar ég ræddi þessi mál. Umræðan um greinina er mjög neikvæð og hefur verið mjög neikvæð í mörg ár. Mér finnst það að stórum hluta vera pólitíkinni að kenna og þeim flokkum sem tala á móti þessu kerfi. Það er þeim ekki til framdráttar hvernig þeir hafa talað um þetta kerfi í gegnum tíðina, vegna þess að fólkið í þjóðfélaginu er ekkert endilega alltaf að ígrunda það sem hlutirnir snúast um heldur hlustar það bara á það sem það heyrir og kaupir kannski ódýrustu skýringarnar, skemmstu skýringarnar, á því sem verið er að tala um. Mér finnst umræðan um sjávarútvegsmálin hafa verið mjög skökk.

Þegar farið var að tala um auðlindagjald í kringum — ja, ég man ekki hvenær, en fyrst kom auðlindagjaldið á 2002. Síðan var það sett fram í nýjum lögum 2012. Síðan þá hefur verið talað um að það sé ekki nema sanngjarnt að þjóðin fái arð af auðlindinni — sem öll þjóðin á og ég er alveg sammála því. Það sem mér finnst oft gleymast í þeirri umræðu er að það hlýtur að vera eitthvað varið í atvinnugrein sem getur borgað auðlindagjald. Það hlýtur að vera eitthvað rétt við kerfið í grein sem getur borgað auðlindagjald.

Þess vegna þykir mér öll umræða um að kippa stoðum undan þessu kerfi óvarleg, sérstaklega eins og ég heyrði í ræðum hér áðan, þegar talað er um að taka hluta af kvótaúthlutun, aukningu eða eitthvað slíkt, og fara í uppboðsleið. Í mínum huga er þetta ekkert annað en að kippa stoðunum undan kerfinu. Ef maður tekur einn fót undan stól sem er með fjórum fótum verður hann mjög óstöðugur.

Gott og vel. Það sem ég er búinn að reyna að segja í þessari ræðu minni er það að þetta kerfi er ekki gallalaust en það hefur í grunninn virkað mjög vel. Þegar ég var að glöggva mig á frumvarpinu voru tvö atriði sem mér fannst til bóta. Þetta er skilvirkara kerfi, það er nær í tíma og fiskvinnslan er tekin út, mér finnst það líka jákvætt. Eftir standa áhyggjur mínar af því sem hefur komið fram í ræðum á undan og ég hef farið í andsvör um. Það eru smærri útgerðir. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur sagt að þetta gangi jafnt yfir alla, sem það sannarlega gerir í þessu frumvarpi. Það kostar, þetta er gjald fyrir að fá að veiða fisk úr sjó. Á sama tíma segir ráðherrann að það kosti að fara í á og veiða lax. Ég spurði í gær undir liðnum um störf þingsins: Hverjir fara upp í á að veiða lax? Ekki hafa allir efni á því. Mér finnst að við sem erum í nefndinni, auk þerra sem að málum koma, þurfum í framhaldinu, þegar þessum umræðum lýkur hér í dag — vonandi gerist það og málið fer til atvinnuveganefndar — að ná sátt um það hvernig allir geta sæmilega unað við þessa gjaldtöku, stórir sem smáir. Helst hefði ég viljað sjá landsbyggðina, þaðan sem gjaldið kemur, fá sinn skerf af kökunni og annað í þeim dúr.

Frumvarpið er að mörgu leyti býsna gott. Ég hef kannski hugsað aðrar leiðir sem mér hafa fundist auðveldari þegar ég hef verið að velta þessum hlutum fyrir mér með félögum mínum. Ég ætla ekkert að ræða það hér. Við í atvinnuveganefnd fáum málið til umfjöllunar eftir þessa umræðu og ég geri mér vonir um að málið fái góða afgreiðslu.