149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann spyr í fyrsta lagi hvort þetta sé, ja, hér hef ég skrifað: Of hátt. Væntanlega á þetta að vera: Ekki nógu hátt. Ég biðst forláts, virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að öll árin hafi þingmenn Vinstri grænna talað um að þetta væri of lágt. Hluti af því regluverki sem tekið er hérna inn í er runnið undan rifjum hæstv. sjávarútvegsráðherra Vinstri grænna á þeim tíma. Það vakti töluverða athygli og mótmæli víða í samfélaginu og hjá mörgum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar þá sem þótti allt of hátt gjald lagt á útgerðina, árið 2012 ef ég man rétt. Hér urðu mikil mótmæli, gott ef ekki meira að segja hér fyrir utan.

Hvað er ekki nógu hátt eða hvað er of hátt? Mér finnst sú leið að horfa á einhvers konar meðaltal þess sem hefur verið síðustu tíu árin skynsamleg að einhverju leyti. Ef ég fengi einn að ráða þessu yrði sennilega ekkert gert af því að ég hef ekki gáfurnar til að reikna þetta út. Þess vegna kom ég inn á það sérstaklega í ræðu minni að þetta væri kannski einhvers konar sátt í málinu.

Mér finnst þessi reikniregla sem ég hef ekki séð áður, en núna er komin, ekki óskynsamleg. Nú sé ég að tími minn er búinn. Ég biðst forláts og þarf að koma inn á hitt í næsta svari.