149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:51]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Geta sjávarútvegsfyrirtækjanna til að greiða veiðigjald, eða einhvers konar afgjald fyrir afnot af auðlindinni, er ekki fasti. Ekki er hægt að segja til um það hvað sé hæfilegt gjald. Þvert á móti er nú verið að tengja gjaldið við raunverulega afkomu fyrirtækjanna umfram það sem verið hefur hingað til.

Ég lýsti því hér áðan að álögð veiðigjöld í minni heimabyggð, í Vestmannaeyjum, væru á þessu ári yfir milljarður. Það er tvöföldun á veiðigjöldum frá árinu á undan. Veiðigjöldin hafa aldrei verið hærri en á því ári sem afkoman í sjávarútveginum er verst. Þau voru aldrei lægri, ef við tökum síðasta áratug, en á því ári sem afkoman í sjávarútveginum var best. Það var m.a. gallinn á því veiðigjaldakerfi sem við hverfum frá núna. Veiðigjöldin eru með öðrum orðum ekki sá fasti að við getum sagt: Geta sjávarútvegsins til að greiða veiðigjald er þessi í ár en verður allt önnur á næsta ári.

Það sem ég er að reyna að segja er að ég dreg í efa að uppboðsleiðin, eins og hún hefur verið kynnt hér af Viðreisnarþingmönnum, með öllum girðingunum, feli í sér frjálsari verðmyndun á afgjaldi fyrir notkun á auðlindinni en hvert annað það kerfi sem nota má til þess.

Fegurðin sem ég var að lýsa hér áðan fælist þá í þeirri teoríu að gefa þetta bara allt frjálst, bjóða allt upp girðingalaust.