149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:57]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjald. Markmiðið með veiðigjaldi kemur mjög skýrt fram í 1. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta:

,,Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.“

Hæstv. sjávarútvegsráðherra fór mjög vel yfir þau markmið og tengingu við frumvarpið sem við ræðum og kannski fyrst og fremst þá staðreynd að ef ekki værir fyrir blómlegan sjávarútveg, þar sem má segja að umskiptin hafi orðið um aldamót þegar kemur að aðkomu í greininni, væru lífskjör hreinlega ekki með sama hætti og við getum metið þau. Við erum auðvitað ekki að ræða fiskveiðistjórnarkerfið, eins og fram hefur komið hjá hv. þingmönnum Páli Magnússyni og Hönnu Katrínu Friðriksson, heldur gjaldið fyrir afnot af auðlindinni.

En að sjálfsögðu er skiljanlegt og jafnvel óhjákvæmilegt að við ræðum þetta samhliða. Frumvarpið kemur, verði það samþykkt, í stað gildandi laga um veiðigjald, nr. 74/2012, og falla þá úr gildi 31. desember næstkomandi. Hins vegar eru lög um stjórn fiskveiða sem tóku fyrst gildi 1990 og þar kemur fram í 1. gr. sú árétting að auðlindin er í eigu þjóðarinnar, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Þá vil ég draga fram mikilvægi þess að hafa í huga þá áherslu sem er í lögum um fiskveiðistjórn, að tryggja og treysta atvinnu og byggð í landinu. Eins það sem fram kemur í 20. gr. þeirra laga varðandi þá sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt þeim lögum eða landa afla, að fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks skuli greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir. Þetta er það sem við erum að ræða, virðulegi forseti, og hefur mikið verið rætt á umliðnum misserum, að gjaldið þurfi að afkomutengja og byggjast á afkomutölum nær rauntíma. Í frumvarpinu sem við ræðum, frumvarpi til laga um veiðigjald, er þeim sjónarmiðum sannarlega mætt.

Það á ekki að koma á óvart að hæstv. sjávarútvegsráðherra leggi þetta frumvarp fram í því formi sem það er vegna þess að í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks, segir, með leyfi forseta:

,,Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.“

Þeim sjónarmiðum er klárlega mætt í frumvarpinu.

Þar segir enn fremur, virðulegi forseti:

,,Mikilvægt er að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir og viðhalda fjölbreytni í vaxtarmöguleikum til að tryggja afkomuöryggi þeirra.“

Ég vil taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa rætt þann fjölbreytileika sem er í sjávarútvegi okkar þegar kemur að fyrirtækjum og hvernig þetta leggst misjafnlega á eftir landshlutum og stærð og formi fyrirtækja og upplýsingar kannski ekki nægilega skýrar, alla vega hefur maður þær ekki allar tiltækar á þessum stað á þessari stund, en ég vona hv. atvinnuveganefnd dragi fram allar upplýsingar sem skipta máli þegar við skoðum þann þátt.

,,Vega þarf og meta fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir, þ.m.t. strandveiða, með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.”

Þetta segir í stjórnarsáttmála og þess vegna er mjög mikilvægt að við förum mjög vandlega og ígrundað yfir stöðu mála hvað það varðar.

Allt þetta skiptir máli, að útgerðir um allt land, minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki sem stærri, greiði réttlátt gjald og tryggi þannig þjóðinni réttlátan hlut sinn í arðsemi sameiginlegrar auðlindar á sama tíma og fyrirtæki hafa tækifæri til að vaxa og dafna og byggja áfram upp getu til þess að endurfjárfesta. En við megum ekki ganga svo nærri þeim að fyrirtækjunum og útveginum hnigni með of mikilli gjaldtöku. Við verðum að gæta hófs og tryggja að gjaldtakan sé í réttum takti í tíma samhliða afkomu fyrirtækjanna, sem sannarlega er lagt til hér og það er vel, virðulegi forseti.

Þannig og aðeins þannig getur sjávarútvegurinn, sem viðurkennt er að standi framarlega á alþjóðavísu, staðist samkeppni áfram á erlendum mörkuðum og á sama tíma náð markmiðum sjálfbærrar nýtingar. Þannig getur sjávarútvegurinn áfram verið fremstur á sviði rannsókna og þróunar og staðið að nýsköpun og vöruþróun, eins og ég fór yfir og talað er um í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar, að við leitumst við að tryggja að fyrirtækin og atvinnugreinin geti haldið áfram að auka virði afurða og lagt til aukinnar hagsældar á Íslandi.

Þetta frumvarp á að tryggja enn frekar en áður að þeim markmiðum verði náð. Gögnin sem liggja til grundvallar ákvörðun gjaldanna verða nú nær í tíma og afkomutengingin því nær rekstrinum og þeim sveiflum sem verða í veiðum og afkomu þeirra, sem er að því leytinu mun skynsamlegri nálgun og til lengri tíma betri fyrir alla.

Gjaldheimtan fer nú fram hjá ríkisskattstjóra sem mun sjá um útreikninga í stað ákvörðunar veiðigjaldanefndar sem verður aflögð. Þannig mun stjórnsýslan í kringum útreikninga og innheimtu verða stillt með skynsamlegri nálgun í stað þess að byggja ákvörðun á tveggja, þriggja ára gömlum gögnum sem Hagstofan vinnur, svokallað árgeiðslugjald. Ég sem formaður hv. fjárlaganefndar fagna því að verið sé að breyta þessu, vegna þess að það að miða við almanaksárið verður jafnframt nær lögum um opinber fjármál og ríkisfjármálaáætlun og að því leytinu mjög jákvæð breyting.

Það þarf skynsemi í nálgun eins og hér er viðleitni til, að stilla gjaldtöku í hóf og gæta jafnræðis.

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kallaði gjaldtökuna fyrr á þessu ári í viðtali í Viðskiptablaðinu, með leyfi forseta, ,,hátekjuskatt á sterum“. Þetta var á þeim tíma sem til umræðu voru í þinginu aðgerðir til að koma til móts við útgerðir víða um land þar sem minni fyrirtæki og millistór ættu í vandræðum og búið væri að leggja af skuldaafslátt og bregðast þyrfti við því.

Varðandi þennan hátekjuskatt á sterum, þar sem eru útreikningar aftur í tímann eins og við höfum viðhaft hingað til, hefði miðað við óbreyttar forsendur gjaldtakan orðið 58–60% af hagnaði, þar af tekjuskattur 20 og veiðigjaldið 40. Vissulega geta mörg af stærri fyrirtækjunum með mestan hluta kvótans staðið það af sér, en gengið væri mjög nærri smærri fyrirtækjum í atvinnugreininni og það beinlínis skaðlegt atvinnugreininni og þar með samfélaginu öllu, svo vitnað sé til orða framkvæmdastjórans.

Eins og við þekkjum öll náðist ekki samstaða um aðgerðir en við erum að ræða frumvarp til laga um veiðigjald sem er skynsamleg nálgun á það sem við getum kallað hóflegt veiðigjald þar sem gætt er jafnræðis og farið nær rauntíma. Það er mjög mikilvægt.

Hæstv. forsætisráðherra sagði m.a. á sjávarútvegsdeginum, á ráðstefnu á vegum Deloitte, SA og SFS, að hann vonaði að frumvarpið skapaði samstöðu og að við sem þjóð værum komin á þann stað að skilningur ríkti um að auðlindin í hafinu væri sameign þjóðarinnar. Mínar vonir standa til þess að stjórnmálaflokkar nái sem breiðastri samstöðu um ákveðnar breytingar á stjórnarskrá þannig að við fáum nýtt auðlindaákvæði, stjórnsýslu veiðigjalds verði breytt og dregið úr.

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að vitna í orð hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að mér fannst það mjög athyglisvert sem þar kom fram, með leyfi forseta: „Við eigum náttúruna og auðlindirnar saman.“ Ég get tekið heils hugar undir þau orð hæstv. ráðherra.

Annað sem mér fannst mjög athyglisvert var að hæstv. forsætisráðherra sagði að sjávarútvegurinn væri hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar og tækifærin fram undan mikil.

Þetta rímar mjög vel við orð hæstv. sjávarútvegsráðherra í framsögu um frumvarp um veiðigjald sem við erum að ræða. Þannig verðum við að nálgast af virðingu þessa atvinnugrein, þá auðlind sem við erum að fjalla um að taka gjald af, vegna þess að hún er einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Þetta rímar jafnframt mjög vel við ályktun af flokksþingi okkar Framsóknarmanna þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegur og landbúnaður eru grunnatvinnuvegir landsins og traustar stoðir í byggðum þess. Greinarnar þurfa ávallt að búa við sanngjörn starfsskilyrði. Tryggja þarf samkeppnishæfni þeirra og leggja áherslu á að styðja við sjálfbærni, nýsköpun og vöruþróun.“

Í frumvarpinu er sannarlega reynt að tryggja þau markmið og sjónarmið sem ég hef reifað um áframhaldandi uppbyggingu og sjálfbærni í sjávarútvegi með sanngjarnri, réttlátri gjaldtöku með jafnræði og meðalhóf að leiðarljósi.

Þetta er dregið ágætlega saman í frumvarpinu, að settur verði nýr reiknistofn veiðigjalds sem verði byggður á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Veiðigjaldið verði 33% af reiknistofni. Það er ekki tekið af himnum ofan heldur er reynt að nálgast það af sanngirni og reiknað upp tíu ára tímabil. Reglur um frítekjumark veiðigjalds verða óbreyttar. Ég geri ráð fyrir því að hv. atvinnuveganefnd muni fara mjög vel yfir það og stöðu sjávarútvegsfyrirtækja vítt og breitt um landið og, eins og ég fór yfir, að veiðigjaldið verði ákveðið fyrir almanaksárið.

Eilítið hefur borið á umræðu um aðrar leiðir í tengslum við fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni. Þar hefur verið nefnd svokölluð uppboðsleið og vísað til Færeyja. Það er auðvitað alltaf vandasamt að ræða slíkan samanburð, eins og hefur reyndar komið ágætlega fram í umræðunni, og bent hefur verið á þá staðreynd að í reynd þegar allt er tekið er mun meira greitt bæði í heild í krónum og á kíló af veiddum fiski hér á landi í samanburði við t.d. Færeyjar. Ég hef þó ekki allar tiltækar upplýsingar.

Það hefur einnig komið fram að gjaldið leggst misjafnlega á eftir fisktegundum, fyrirtækjum og landshlutum og vægi sjávarútvegs í tekjuöflun er mismikið.

Þá mynd og þau atriði öll þarf að ræða í þaula. Hvort einhvern daginn næst fullkomin sátt skal ég ekki segja en stöðugt rekstrarumhverfi og fyrirsjáanleika eiga fyrirtæki í greininni skilið. Umfram allt verðum við að tryggja áframhaldandi möguleika til að auka framleiðni, ná fram arði og samkeppnishæfni greinarinnar í harðri alþjóðlegri samkeppni.