149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil mjög vel að hv. þingmaður sé ekki með útfærsluna á hreinu en mér fannst mikilvægt að benda á þetta atriði því að ég hef svolítið heyrt því fleygt í dag. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það stangast á við hugmyndafræðina þegar við tölum um auðlindagjald og að þetta séu auðlindir þjóðarinnar að velta því fyrir sér að við eigum að taka gjald og það eigi samt bara að fara á ákveðna staði.

Ég tek heils hugar undir hugmyndir hv. þingmanns þegar því var velt upp áðan hvort taka ætti gjald af frekari auðlindum, að við ættum raunverulega að vera að tala um þetta sem auðlindagjald og ekki einungis af auðlindinni fiskinum í sjónum heldur mögulega af öðrum auðlindum sem nýttar eru.

Virðulegur forseti. Ég vildi a.m.k. nota tækifærið og koma því á framfæri varðandi slíkar hugmyndir, þegar því er varpað fram að hluti af gjaldinu eigi að renna með einhverjum hætti beint til viðkomandi sveitarfélaga, að mér finnst það svolítið brotakenndur málflutningur. Þegar við tölum um að auðlindin sé eign þjóðarinnar hlýtur hún að tilheyra jafn mikið því fólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu eða ekki í sjávarplássum þar sem fiskurinn er dreginn að landi.

Sama væri hægt að benda á ef við værum að tala um auðlind eins og orku, nýtingu á fallvötnum okkar, ættu slík gjöld þá aðeins að renna til viðkomandi svæðis þar sem viðkomandi uppspretta er? Ég held ekki. Ég held að skynsamlegra sé ef við innheimtum slík gjöld að þau renni í sameiginlega sjóði. Svo kann að vera að ástæða sé til að deila þeim út til sveitarfélaga í byggðaverkefnum í gegnum jöfnunarsjóð eða önnur slík tæki. En að gjöld eigi að renna beint inn í viðkomandi sveitarfélag finnst mér ekki sérstaklega góð hugmynd.