152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[14:59]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að fá að halda áfram þessari umræðu sem tók allt gærkvöldið líka. Sú umræða var um margt efnismikil fannst mér og gott að hæstv. forsætisráðherra tók virkan þátt í þeim skoðanaskiptum sem áttu sér stað um þetta. Það er mín upplifun að stjórnarliðarnir séu einhvern veginn pínu áhugalausir um þetta mál og mér finnst það miður. Mér finnst það risastórt mál hvernig við skiptum upp Stjórnarráðinu þegar blasa við allar þessar áskoranir sem talað er svo fallega um, bæði í stjórnarsáttmálanum og öllu öðru sem frá hæstv. ríkisstjórn kemur, sem færir okkur heim sanninn um það að það skiptir alveg ofsalega miklu máli hvernig til tekst. Það sem ég hef verið að gagnrýna einna helst í þessu er að við vitum ekkert um neinn rökstuðning að baki því að ráðuneytum er skipt upp með þeim hætti sem lagt er til.

Ég ætla t.d. að nefna hérna með háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og vitna í greinargerðina. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Stofnun nýs ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála er til marks um framsækna stefnu ríkisstjórnarinnar á þessum málefnasviðum. Markmið hins nýja ráðuneytis verður að horfa stöðugt til þess hvernig unnt er að gera hlutina betur en áður, hvernig hægt er að innleiða nýjungar og gera þannig bæði einstaklingum og fyrirtækjum kleift að bæta hag sinn og framtíðarhorfur. Nýtt ráðuneyti kemur til með að styðja við umhverfi nýsköpunar þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín, dafna og vaxa í opnu og frjálsu samfélagi nýsköpunar og samkeppni.“

Þið verðið að fyrirgefa en mér finnst þetta vera einhvern veginn meira eins og áramótaávarp heldur en greinargerð þar sem er rökstutt og greint og rýnt og við þingmenn sannfærðir um að það sé heppilegt fyrir okkur að greiða atkvæði með því að tilhögun Stjórnarráðsins næstu fjögur árin verði með þeim hætti sem sagt er í þessari greinargerð. Ég kalla eftir þessu. Það er enn þá nægur tími, bæði hjá hæstv. forsætisráðherra og stjórnarþingmönnum, að koma bara með þessar leiðbeiningar til okkar stjórnarandstöðuþingmanna. Af hverju eigum við að greiða atkvæði með þessu? Ég er ekki að útiloka að ég geri það. Ég tel, eins og ég lýsti í minni fyrri ræðu, mjög mikil rök fyrir því að Stjórnarráðið þurfi að vera sveigjanlegt og dínamískt, að ríkisstjórn á hverjum tíma geti ákveðið að setja tilteknar áherslur á oddinn og það eigi sér þá með einhverjum hætti endurspeglun í því hvernig við röðum verkefnum á milli ráðuneyta og skiptum þeim upp. En það er bara enginn slíkur rökstuðningur, hvað þá kostnaðargreining, í greinargerðinni. Þetta vil ég fá. Ég er ekki að útiloka að þetta sé gott. Ég vil bara fá rökstuðninginn fyrir því af hverju við eigum að fara þessa leið frekar en einhverja aðra.

Ég hef enn þá ekki fengið neinar skýringar á því hjá hæstv. forsætisráðherra hvort það hafi verið sendar einhverjar spurningar inn í ráðuneytin, einhverjir kallaðir á fund ráðuneytisstjóra, einhverjir deildarstjórar í ráðuneytunum, um það hvort heppilegt væri að skipta hlutunum upp með þessum hætti frekar en hinum, einfaldlega vegna þess að við vitum að þótt stjórnarherrarnir þrír séu afbragðsfólk, góðum gáfum gætt, er það þannig með okkur öll að það er gott fyrir okkur að fá lánaða dómgreind, ekki síst þegar við erum að tiltaka svona stóra hluti eins og gert er í því sem fylgir stjórnarsáttmálanum og þessari uppskiptingu. Þannig að ég vil gjarnan fá að heyra einhverja útlistun á því t.d. hvort menn viti hvaða áskoranir þetta hefur í för með sér á einstakar deildir innan ráðuneyta. Óvissa starfsfólks um það hvar það vinnur er mjög skiljanleg en stóra spurningin er auðvitað: Þessi breyting á þeirra högum, er hún til góðs? Er hún raunverulega að skila þeirri skilvirkni sem talað er svo fjálglega um? Í þessari greinargerð er það því miður ekkert rökstutt.

Ég vona að hæstv. forsætisráðherra og stjórnarþingmenn taki virkan þátt í þessari umræðu vegna þess að þetta er risastórt mál. Allur þingheimur er á bak við það að við eigum að fanga tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar eins og talað er um í stjórnarsáttmálanum. Það eru allir þingmenn á bak við það og tilbúnir að styðja það að við eigum að setja mikið afl í að berjast gegn loftslagsvánni. Við erum öll tilbúin til að vera á bak við góð verk og reyna að vinna að því marki. En við verðum að fá einhvers konar sannfæringu og eitthvert haldreipi fyrir því að þær tilteknu aðgerðir sem við erum að ræða í þessari þingsályktun, að það sé einhver innstæða á bak við þær, að þetta sé ekki bara, með fullri virðingu, eitthvað sem hljómar vel í áramótaávarpi heldur sé rökstuðningur, kostnaðargreining, rýni, að ekki sé talað um skoðanaskipti hér í þingsal um það hvort heppilegt sé að fara þessa leiðina frekar en hina.