152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:19]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að sitja hérna með okkur og hafa tekið þátt í umræðunum í gær. Mig langaði til að reyna að plata hana aðeins upp í andsvör. Nú er það þannig að samkvæmt forsetaúrskurðinum frá 28. nóvember eiga málefni barna með fötlun að heyra undir félagsmálaráðuneytið, ráðuneyti hæstv. ráðherra Guðmundar Inga Guðmundssonar. Það er auðvitað umhugsunarvert út af fyrir sig að málefni barna með fötlun séu slitin svona frá ráðuneytinu sem fer með málefni barna almennt. En látum það liggja milli hluta, kannski eru einhverjar eðlilegar skýringar á því. Forsetaúrskurðurinn segir að Ráðgjafar- og greiningarstöð, sem áður hét Greiningar- og ráðgjafarstöð, heyri undir félagsmálaráðherra en samkvæmt þingsályktunartillögunni sem við ræðum hér í dag á stofnunin að heyra undir mennta- og barnamálaráðuneytið, ráðuneyti hæstv. ráðherra Ásmundar Einars Daðasonar. Þá er spurningin: Hvort eigum við trúa forsetaúrskurðinum eða þingsályktunartillögunni? Má skilja þetta þannig að stofnunin muni heyra undir hæstv. ráðherra Ásmund Einar Daðason núna yfir hátíðarnar en færast svo yfir til hæstv. ráðherra Guðmundar Inga Guðmundssonar einhvern tímann eftir hátíðirnar?

Virðulegur forseti. Þetta er mjög mikilvæg stofnun þar sem tekið er á móti börnum með alvarlegar þroskaraskanir. Þetta snýst um snemmtæka íhlutun, að verja lífsgæði þessara barna til framtíðar. Fyrr á árinu bárust fréttir af því að á fjórða hundrað barna væri á biðlista hjá stofnuninni og að mörg þeirra hefðu þurft að bíða í tvö ár eftir því að fá greiningu og þjónustu. Þannig er staðan. Umboðsmaður barna hefur hvatt til þess að stofnunin fái aukið fjármagn til að vinna á biðlistunum en ríkisstjórnin vill samkvæmt fjárlagafrumvarpi og samkvæmt útgjaldarömmum næstu ára, sem fylgja í fylgiriti með fjárlögunum, skera niður til stofnunarinnar, lækka framlögin á hverju ári, 2022, 2023 og 2024, sem er auðvitað kaldranalegt út af fyrir sig. En að sama skapi er auðvitað alvarlegt að verið sé að skapa óvissu um það undir hvaða ráðuneyti stofnunin heyrir.

Mér þætti vænt um það ef hæstv. forsætisráðherra gæti komið upp og svarað eftirfarandi tveimur spurningum. Númer eitt: Undir hvaða ráðuneyti mun Ráðgjafar- og greiningarstöð heyra? Mun Ráðgjafar- og greiningarstöð heyra undir hæstv. félagsmálaráðherra eða hæstv. barnamálaráðherra? Númer tvö: Mætti kannski nýta brot af þeim peningum sem fara í uppstokkun ráðuneytanna til að hætta við niðurskurðinn til stofnunarinnar og vinna þá með markvissum hætti gegn biðlistum barna eftir nauðsynlegri þjónustu?