152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi hringlandann og það hversu óskýr þessi mál verða, alla vega um nokkra hríð: Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í þeim efnum. En mig grunar að hv. þingmanni hafi misheyrst — ekki er útilokað að ég hafi mismælt mig en ég held samt ekki — en þegar ég var að tala um áhugasvið þá var ég að tala um nefndaskipan, val þingmanna um sæti í þingnefndum. (EÁ: Áhugasvið ráðherra, sem þú talaðir um.) — Þá hef ég mismælt mig, ég vil alls ekki að Stjórnarráðið sé skipulagt eftir áhugasviði ráðherra, guð minn góður, það væri mjög slæm niðurstaða. Bara svo að það sé alveg á hreinu þá má það alls ekki vera þannig að skipulagið taki mið af áhugasviði ráðherra. Það væri alveg fráleitt. Ætlan mín var að tala um að þingmenn hefðu skipað sér í nefndir út frá því hvernig skipulag verkefna væri í nefndunum í dag en við sæjum kannski fram á að málaflokkar yrðu færðir milli nefnda til að mæta þeim breytingum sem lagðar eru til í þessari þingsályktunartillögu, það var í rauninni það sem ég ætlaði mér að koma inn á og taldi mig hafa gert.

Ég vil bara taka undir þau sjónarmið sem snúa að hringlandanum og óskýrleikanum. Hæstv. forsætisráðherra nefndi í gær að ég væri íhaldsmaður í þessum efnum og það má alveg örugglega til sanns vegar færa. En ég held að festa í stjórnskipulegum efnum sé virði í sjálfu sér og ég held að býsna sterk rök þurfi fyrir því að setja hreyfingu á málaflokka og enn sterkari rök fyrir eins gríðarlega umfangsmiklum breytingum og við horfum fram á núna.